Vera:kven:vera

Laugardaginn 30. maí klukkan 15:00 opnar í Tjarnarsal Ráðhúsi Reykjavíkur innsetningin VERA:KVEN:VERA eftir Guðrúnu Sigríði Haraldsdóttur myndlistarmann sem er unnin í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi í samvinnu við Borgarskjalasafn Reykjavíkur og Kristínu Gunnlaugsdóttur, myndlistarmann. Allir eru velkomnir á opnunina.

Verkið verður til sýnis fram til 22. júní virka daga kl. 8-19 og um helgar kl. 12-18 og er ókeypis aðgangur.

VERA:KVEN:VERA er leit að einhvers konar sameiginlegu sjálfi kvenverunnar; - verkið skoðar og leitast við að sætta eða sameina annarsvegar hið innsta sjálf og hinsvegar okkar ystu speglun eða útlit.

Verkið er unnið í blandaðri tækni og er byggt á þremur aðskildum efnis þáttum;

- verki Kristínar Gunnlaugsdóttur - SKÖPUNARVERK I - í Tjarnarsal Ráðhúsins síðastliðið ár, - handskrifuðum bréfum og ljósmyndum af prúðbúnum konum frá því í kring um 1915, sem varðveitt eru í Borgarskjalasafns Reykjavíkur, - gestum á opnun er boðið að taka þátt sköpuninni með því að vera „bætt í stafrænan grunn verksins, en það er aðferð sem Guðrún Sigríður hefur þróað í verkum sínum á síðastliðnum árum.

Starfsmenn Borgarskjalasafns hafa á árinu farið markvisst gegnum safnkostinn að kanna hvað er til af skjölum kvenna og ljósmyndum frá árunum í kring um 1915 þegar konur fengu kosningarétt. Minna fannst en haldið var en þó töluvert. Þó hefur safnið fengið til varðveislu skjal kvenna frá þessum tíma sem mikill fengur var að.

Borgarskjalasafn hvetur þá sem hafa undir höndum eldri skjöl að huga að varðveislu þeirra heima fyrir eða koma þeim á skjalasafn til varðveislu. Starfsmenn Borgarskjalasafns geta veitt nánari upplýsingar. Sérstaklega vantar að fá fleiri skjalasöfn kvenna til varðveislu, t.d. sendibréf, dagbækur, póstkort, matreiðslubækur og ljósmyndir.

Nánari upplýsingar gefa starfsmenn Borgarskjalasafns í síma 411 6060 eða með því að senda tölvupóst á borgarskjalasafn@reykjavik.is.