Borgarskjalasafn Reykjavíkur var opið frá klukkan 15-21 á menningarnótt og komu 398 gestir til þess að sjá sýningu safnsins, Skipulagstillögur sem ekki urðu að veruleika. Þar gaf að líta líkön og ljósmyndir af ráðhúsum sem aldrei voru byggð og ýmiss konar gögn tengd byggingu ráðhúss og uppbyggingu nýs miðbæjar.
Þá gafst fólki einnig kostur á að fletta gömlum úrklippubókum um skipulagsmál í Reykjavík. Auk þess gátu gestir flett úrklippubókum um glæpi og fylgst með sýningu á gömlum Reykjarvíkurpóstkortum sem var varpað á vegg í takt við tónlist tíðarandans.
Boðið var upp á kaffi, gos og súkkulaði og börnum gefnar blöðrur auk þess sem gestir safnsins gátu tekið þátt í getraun (rétt svör og nöfn vinningshafa má sjá hér).
Dagskráin gekk í alla staði vel. Erfitt að gera upp á milli þess sem í boði var; líkönin af ráðhúsunum vöktu töluverða athygli auk þess sem margir gleymdu sér við að skoða gamlar úrklippubækur. Einnig sátu margir dágóða stund og horfðu á Reykjavíkurpóstkortin.
Starfsfólk Borgarskjalasafns þakkar gestum fyrir komuna.