Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur opnað nýja vefsíðu www.olafurthors.is sem er helguð minningu Ólafs Thors og er henni ætlað að veita innsýn í líf hans og störf. Á henni er að finna úrval af greinum og ræðum Ólafs Thors, sem Pétur Kr. Hafstein tók saman, ljósmyndasögurnar Í foreldrahúsum, Fjölskylda og vinir og Starfsævin, hljóðskrár og ítarleg skrá yfir skjala- og myndasafn Ólafs Thors. Í framtíðinni er stefnt að því að þar verði einnig að finna valda hluta af skjalasafni Ólafs.
Borgarstjóri tók formlega á móti einkaskjalasafni Ólafs Thors til varðveislu 28. október sl. en það spannar það tímabil þegar Ísland var að mótast sem sjálfstætt ríki – frá lokum 19.aldar fram yfir miðja 20.öld. Um að ræða 72 öskjur með bréfum, blaðagreinum, ræðum, úrklippum, og minnispunktum frá langri ævi mikils athafna- og stjórnmálamanns, sem stöðugt var í sambandi við fjölda fólks. Auk ritaðra heimilda fylgir mikið safn ómetanlegra ljósmynda úr lífi Ólafs sem stjórnmála- og fjölskyldumanns auk kvikmynda og hljóðskráa þar sem heyra má Ólaf sjálfan tala og hafa sumar þeirra ekki heyrst opinberlega fyrr. Gefendur voru systurnar Guðrún og Ólöf Pétursdætur og fjölskyldur þeirra. Safnið var afhent tölvuskráð og frágengið í arkir og öskjur og það því tilbúið til notkunar.
Safninu fylgir umrædd ítarleg vefsíða um Ólaf Thors. Guðrún Pétursdóttir ritstýrir vefsíðunni og hefur ásamt manni sínum Ólafi Hannibalssyni samið texta vefsíðunnar, þar sem annað er ekki tekið fram. Þau hafa einkum stuðst við bækurnar Thor Jensen eftir Valtý Stefánsson, Ævisaga Ólafs Thors eftir Matthías Johannessen,og Thorsararnir eftir Guðmund Magnússon.
Vefurinn var hannaður og settur upp af vefteymi Reykjavíkurborgar en vefstjóri borgarinnar er Hreinn Hreinsson. Verkefnastjóri með vef Ólafs Thors er Kolbrún Hlín Hlöðversdóttir.
Öllum þeim sem aðstoðuðu við gerð þessarar vefsíðu er þökkuð aðstoðin: ættingjum og vinum Ólafs Thors sem lögðu til myndir og skjöl eða aðstoðuðu á annan hátt; Guðmundi Magnússyni sagnfræðingi fyrir yfirlestur og ráðgjöf; Þorsteini Þorsteinssyni fyrir þýðingar, starfsmönnum á Borgarskjalasafni, Ljósmyndasafni og skrifstofu vefþróunar hjá Reykjavíkurborg fyrir aðstoð og vinnu við uppsetningu vefsins, Sambandi ungra sjálfstæðismanna og RÚV fyrir afnot af hljóðskrám og útvarpsdagskrá og Kvikmyndagerðinni Alvís fyrir afnot af kvikmynd um Ólaf Thors. Samtökum atvinnulífsins er þakkaður styrkur til verksins.
Sérstakar þakkir fær Pétur Kr. Hafstein, en í kaflanum Ræður og greinar er að finna efni sem hann tók saman árið 1971. Í handriti Péturs er einnig að finna greinar og ræður samtímamanna um Ólaf Thors, sem birtast í kaflanum Ólafs Thors minnst.
Síðast en ekki síst er Önnu Theódóru Rögnvaldsdóttur þökkuð hennar mikla starf við undirbúning vefsíðunnar og gerð myndasagnanna Í foreldrahúsum, Fjölskylda og vinir og Starfsævin og Guðrúnu Pétursdóttur fyrir óþrjótandi elju, framsýni og að gefast aldrei upp við verkið. Án þeirra hefði þessi vefur aldrei orðið að veruleika.
Ólafur Thors (1892-1964) var meðal helstu forystumanna í íslenskum stjórnmálum á 20. öld. Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins lengur en nokkur annar, frá 1934 til 1961, eða í 27 ár. Hann myndaði ríkisstjórn fimm sinnum auk þess að gegna embættum dómsmálaráðherra, atvinnu- málaráðherra, utanríkisráðherra, félagsmálaráðherra, sjávarútvegs- og iðnaðarmálaráðherra.
Ólafur Thors lét að sér kveða í atvinnulífinu frá unga aldri. Ásamt föður sínum og bræðrum stofnaði hann togaraútgerðarfélagið Kveldúlf 1912 og var einn af stjórnendum þess þar til hann ákvað að einbeita sér að stjórnmálum eftir að hann tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum 1934. Milli heimsstyrjaldanna var Kveldúlfur stærsta togarafélag í einkaeigu við Norður-Atlantshaf og stærsta útflutningsfyrirtæki fiskafurða á Íslandi. Ólafur Thors var fyrst kjörinn á þing 1926 og sat á þingi óslitið til 1964, en hann lést á gamlársdag það ár.