Tuttugu ár á skjalasafni

Í dag var haldið upp á 20 ára starfsafmæli Guðjóns Indriðasonar, deildarstjóra skráningardeildar Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Hann rifjaði upp nokkrar skemmtilegar minningar frá árum sínum á safninu.

,,Ég hóf störf seint á síðustu öld á afmælisdaginn minn 5. maí 1991. Ég hafði komið á skjalasafn áður en ekki á Íslandi. Aldrei komið á Borgarskjalasafnið. Þetta var nú ekki neitt sérstaklega uppörvandi vinnustaður, hálfur niðri í kjallara og vinnurýmið skipt í tvennt. Þrátt fyrir þetta var alveg yndislegt og skemmtilegt að vinna í Skúlatúni. Maður þekkti svo marga og það var góður mórall. Ég hugsa með hlýju til þessara ára í Skúlatúni og allra þeirra sem maður kynntist þar."

,,Skjalamagn jókst mikið eftir að ég kom" segir Guðjón og hlær, ,,enda fór ég að fara markvisst út í stofnanir og kalla inn skjöl sem áttu að vera komin á safnið."

Þess má geta að eftir að Guðjón hóf störf hafa safninu borist yfir 1.500 skjalaafhendingar, samtals um 6.000 hillumetrar, skv. aðfangadagbók. Guðjón hefur skráð eða haft hönd í bagga með skráningu á flestum skjalasöfnunum. Auk þess að skrá skjöl, hefur hann haft umsjón með móttöku safna og haldið utan um aðfangadagbók og skjalaskrár. Þá hefur hann veitt stofnunum borgarinnar símaráðgjöf og líklega heimsótt meirihluta stofnana borgarinnar. Einnig hefur hann farið inn á mörg heimilin að skoða skjalasöfn einstaklinga og verið í miklu sambandi við félagasamtök.

,,Ég man sérstaklega eftir afhendingum frá frú Ellen Sighvatsson. Hún kallaði alltaf á mig þegar hún hafði fundið til meira af skjölum, jafnvel utan vinnutíma eins og á laugardögum. Hún tók þvílíkt vel á móti manni, með kaffi í postulínsbollum, bakkelsi og gestabókina."

En er spennandi að starfa á skjalasafni?

Guðjón hugsar sig um og segir brosandi: ,,Mesta ævintýrið var þegar var verið að rífa innviðina úr Iðnó og það fundust alls konar fundargerðarbækur og skjöl þar. Ég fékk pata af því að í Iðnó, Vonarstræti 3, væri eitthvað skjaladrasl að finna og fór á staðinn. Smiðir voru þá í óða önn að rífa þil frá súð sem hafði verið algjörlega lokað, þetta voru ekki geymslur. Þarna undir súðinni reyndist vera mikið magn skjala. Mikið af þeim voru innpökkuð í ómerktan umbúðapappír og bandi brugðið utanum. Ég setti þetta "drasl" í svarta ruslapoka, og urðu þeir allmargir. Inn í Skúlatún var skundað með pokana og grútdrullugar umbúðirnar teknar frá. Flestir pakkarnir voru svo skítugir að við lá að það þurfti að spúla undrritaðan eftir aðfarirnar. Ég fór þarna margoft niðureftir og fylgdist með og það var ótrúlega skemmtilegt að koma þarna og sjá þegar þeir voru að rífa burt þilin og skjalapakkarnir voru að koma í ljós. Ég efast um að annars hugguleg störf verði óþrifalegri en þarna varð raunin á. En óþrifnaðurinn og erfiðið voru sannarlega þess virði, því þarna leyndust gull og gersemar eins og hægt er að lesa í svokallaðri skjalaskrá Alþýðuhúss Reykjavíkur."

"Í gegnum starfið hef ég kynnst mörgu góðu fólki enda felur starfið í sér mikil samstarf við fólk úti í stofnunum Reykjavíkurborgar. Sömuleiðis þarf ég oft að ræða við þá sem vilja skila inn einkaskjalasöfnum, um hvernig það ber sig að, skilmála og slíkt. Við erum að reyna að draga sem mest úr skilmálum. Oftast þegar fólk afhendir einkaskjalasöfn er það orðið tilbúið til að það varðveitist og aðrir sjái þau. Ekki þörf á að vera með mikla aðgangsskilmála. En mest er ég í sambandi við fólkið úti í stofnunum. Það eru um 200 stofnanir skilaskyldar til Borgarskjalasafns. Ég hef kynnst mörgu yndislegu og eftirminnilegu fólki í gegn um tíðina. Til dæmis Elín Þórðardóttir sem var skrifstofustjóri Borgarendurskoðunar í mörg ár. Síðar urðum við samstarfsmenn á Borgarskjalasafni og ég sakna hennar oft, eftir að hún fór á eftirlaun."

Hvað hvað er það versta sem þú hefur lent í?

,,Ljótasta dæmið sem við höfum lent í var hjá Skólaskrifstofu Reykjavíkur. Skjölin voru uppi á háalofti og þurfti að bera allt niður mjóan og brattan stiga. Þetta var beinlínis hættuleg vinna auk þess að vera mjög erfið. Naglar standandi niður úr lofti. Við þurftum að vera með grímur og hjálma til að skaða okkur ekki. Mikið ryklag lá yfir skjölunum. Þau voru ótrúlega varðveitt þrátt fyrir að vera þarna í óupphituðu og óeinangruðu rými alla þessa áratugi. Mikið af þessu voru algjörlega ómetanleg skjöl sem ekki var vitað að væru til. Ég held að þetta hafi verið yfir 100 hillumetrar af skjölum sem við bárum þarna niður. "

Hafa orðið miklar breytingar á skjalavörslu stofnana öll þessi ár?

,,Það hafa orðið miklar breytingar þessi ár. Smátt og smátt kom meiri regla á skjalamálin. Stofnanir fóru að vera með skjalastjóra og bréfalykla og það komst festa á þetta aftur og skikk. Með aukinni tölvuvæðingu komst meiri óreiða á þetta en fer nú batnandi aftur."

Hvernig var að flytja í nýtt húsnæði að Tryggvagötu 15?

,,Það var alveg yndislegt! Ég hef stundum sagt að það hafi verið eins og að flytja úr kofa í höll. "

Eitthvað að lokum, Guðjón?

,,Ég vil bara ítreka að stofnanir þurfa að taka sig á í skjalamálum. Þau varða svo miklu um réttindi og skyldur fólks og það hefur svo mikið að segja að skjölin varðveitist. Fólk þarf að bera virðingu fyrir því sem það hefur í höndunum. Ég hef þá trú að skilningurinn sé að aukast á því."

Samstarfsmenn á Borgarskjalasafni Reykjavíkur óska Guðjóni innilega til hamingju með 20 ára starfsafmælið.

Viðtal og texti: Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður