Þórunn Franz var kvödd í dag frá Dómkirkjunni en hún starfaði um 10 ára skeið á Borgarskjalasafni en hún hét fullu nafni Sigríður Þórunn Fransdóttir. Hér má sjá nokkrar myndir frá Þórunni á Borgarskjalasafni.
Fréttir af andláti Þórunnar Franz kölluðu fram margar góðar minningar frá árunum sem við störfuðum saman á Borgarskjalasafni Reykjavíkur
Þórunn hóf störf á Borgarskjalasafni árið 1988 og starfaði einkum við úrklippusafn safnsins, sem var lengi eitt vinsælasta efni safnsins. Hún tók við starfinu af Hildi E. Pálsson sem hafði unnið við það í 30 ár. Starfið fólst í að klippa út úr dagblöðum allar umfjallanir um Reykjavíkurborg og annað áhugavert um hvað væri að gerast í Reykjavík. Úrklippurnar voru flokkaðar eftir um 30 efnisflokkum og síðan límdar inn í úrklippubækur. Þetta var nákvæmnisverk sem nýtist vel enn í dag þeim sem rannsaka sögu borgarinnar.
Þórunn var vel að sér, fylgist vel með, hún var glögg, létt og skemmtileg og lífgaði upp á safnið. Hún var samviskusöm, hélt vel áfram og vann verkefni sín af vandvirkni. Hún var góður sögumaður og hafði frá mörgu að segja frá viðburðarríkri ævi sinni. Hún raulaði oft við vinnu sína. Við vissum ekki fyrr en hún hafði starfað með okkur um tíma að hún væri þekkt fyrir tónlist sína og að við þekktum mörg lög sem hún hafði samið.
Þórunn fór á eftirlaun um sjötugt og var missir að henni úr hópnum. Hún hélt alltaf sambandi við okkur, mætti á sýningaopnanir og við heyrðumst af og til. Þórunn var ein af þeim sem maður kynnist í lífinu og gleymir ekki. Hugsar til af og til með hlýhug.
Fyrir hönd okkar á Borgarskjalasafni viljum við kveðja Þórunni Franz með þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast henni og sendum fjölskyldu hennar og vinum innilegar samúðarkveðjur.
Svanhildur Bogadóttir og Gunnar Björnsson