Mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson hefur skipað nýja stjórnarnefnd Þjóðskjalasafns Íslands sbr. ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn, sem samþykkt voru á Alþingi 16. maí sl.
Í 1. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja myndun, vörslu og örugga meðferð opinberra skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og varðveislu sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.
Í 2. gr. laganna kemur fram hin opinberu skjalasöfn sem undir lögin falli séu Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfn sem starfa í samræmi við rekstrarleyfi. Borgarskjalasafn Reykjavíkur er eitt þeirra skjalasafna sem undir lögin heyra.
Um er að ræða fyrstu stjórnarnefnd á grundvelli hinna nýju laga um opinber skjalasöfn og var nefndin skipuð þann 26. nóvember sl.
Stjórnarnefnd safnsins er þjóðskjalaverði til ráðgjafar um stefnu safnsins og önnur málefni sem varða starfsemi þess. Stjórnarnefndin veitir þjóðskjalaverði umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir og skipulag safnsins.
Hin nýja stjórnarnefnd er þannig skipuð:
Guðni Th. Jóhannesson formaður, skipaður án tilnefningar,
Guðmundur Jónsson varaformaður, tilnefndur af Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands,
Jóhanna Gunnlaugsdóttir, tilnefnd af Félagsvísindasviði Háskóla Íslands,
Helga Jóna Eiríksdóttir, tilnefnd af starfsfólki Þjóðskjalasafns Íslands,
Svanhildur Bogadóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
Gunnar Gíslason, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Þjóðskjalavörður situr fundi stjórnarnefndar með málfrelsi og tillögurétt.