Laugardaginn 20. apríl 2013 á Íþróttaþingi 2013 var árangur af átaksverkefni Félags héraðsskjalavarða á Íslandi og Íþrótta- og ólympíusambands Íslands um söfnun íþróttaskjala kynntur og útgáfu skýrslunnar Skjöl íþróttafélaga í héraðsskjalasöfnum á Íslandi var hleypt út á netið.
Átaksverkefnið var tengt hátíðarhöldum í tilefni aldarafmælis Íþróttasambandsins og var því, að undirlagi héraðsskjalasafnanna, hinn árlegi Norræni skjaladagur árið 2012 að nokkru helgaður íþróttum eins og sjá má á vef skjaladagsins.
Af hálfu fulltrúa Félags héraðsskjalavarða, þeim Svanhildi Bogadóttur borgarskjalaverði og Hrafni Sveinbjarnarsyni héraðsskjalaverði í Kópavogi, sem kynntu verkefnið á Íþróttaþingi var lögð áhersla á að þótt þessu átaksverkefni væri lokið, markaði það fremur upphaf þar sem ísinn hefði verið brotinn, mörg íþróttafélög væru nú komin í samband við héraðsskjalasöfnin og hefðu nú framvegis vitund um öruggan vörslustað fyrir skjöl sín.
Góður árangur hefði orðið af átakinu, bæði í því að skjöl hefðu skilað sér til héraðsskjalasafnanna auk þess sem mörg íþróttafélög hefðu hug á og ynnu nú að því að koma skjölum sínum í vörslu héraðsskjalasafnanna, en árangurinn væri ekki síst fóginn í því að vekja íþróttafólk til umhugsunar og meðvitundar um mikilvægi þess að skila vitnisburði um íþróttastarf og íþróttaiðkun til komandi kynslóða og hafa skjöl sín frá degi til dags í röð og reglu.
Skýrslan verður væntanlega endurskoðuð á árinu, þar sem fjögur héraðsskjalasöfn þ.e. Austfirðinga, Rangæinga- og Vestur-Skaftfellinga, Fjallabyggðar og Svarfdæla gátu af ýmsum óviðráðanlegum ástæðum ekki skilað efni í skýrsluna í tæka tíð. Með tilkomu hennar er stutt við aðgang áhugafólks um íþróttasögu að íþróttatengdum skjölum.
Hér er tengill á skýrslu um skjöl íþróttafélaga í héraðsskjalasöfnum á Íslandi í apríl 2013.