Austurbæjarskóli er einn af elstu grunnskólum borgarinnar en hann tók til starfa árið 1930. Austurbæjarskóli er fyrsta húsið í Reykjavík sem hitað er upp með hitaveituvatni. Ásmundur Sveinsson, myndhöggvari gerði lágmyndir yfir báðum aðaldyrum skólans og einnig yfir dyrum á austurgöflum.
Í skólanum voru 30 almennar kennslustofur. Auk þeirra voru margar sérgreinastofur: teiknistofa, kennslueldhús, smíðastofa, sundlaug, fimleikasalur, handavinnustofa stúlkna, samkomusalur fyrir skemmtanir (jólaskemmtanir), kvikmyndasýningar og söngsalur. Einnig sérbúnar náttúrufræði- og landafræðistofur velbúnar kennslugögnum.
Þetta var á þessum tíma líklega best útbúni skóli landsins og jafnvel þótt víðar væri leitað. Oft var farið með erlenda gesti borgarinnar að skoða skólann á fyrstu árunum.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur varðveitir mikið af skjölum sem tengjast byggingu skólans og upphafi og má þar nefna að í málasafni borgarstjóra eru líklega flestir verksamningar varðandi bygginguna.
Þar á meðal er skrá yfir alla muni og áhöld skólans á árinu 1933. Þetta er einstök skrá því hún er nákvæmur listi yfir hvað var til staðar í nýjum skóla á þessum tíma. Búið er að ljósmynda bókina í heild sinni og hér má skoða Skrá yfir áhöld og muni Austurbæjarskóla frá 1933 á pdf formi.