Í tilefni af norræna skjaladeginum hefur verið opnaður sérstakur vefur, www.skjaladagur.is. Þemað er samgöngur og á vefnum er sýning undir heitinu „Á ferð ...“ á skjölum og ljósmyndum þar sem fjallað er um samgöngur á Íslandi í víðasta skilningi. Þar eru jafnframt upplýsingar um dagskrár safnanna í tilefni af deginum auk þess sem starfsemi þeirra er kynnt. Þá er einnig á vefnum getraun. Fólk er hvatt til að heimsækja þau söfn sem hafa opið hús eða skoða fjölbreytt efni Ísafjarðar, skjalasýningarinnar á vefnum, en þar eru mörg skjöl og ljósmyndir sem hafa ekki komið fyrir almenningssjónir áður.
Söfnin sem eru með sýningu á vefnum eru Þjóðskjalasafn Íslands og Borgarskjalasafn Reykjavíkur auk héraðsskjalasafna Kópavogs, Mosfellsbæjar, Akraness, Borgarfjarðar, Ísafjarðar, Skagafjarðar, Akureyrar, Þingeyinga, Austfirðinga, Vestmannaeyja og Árnesinga.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur sýnir hugmyndir um járnbraut og járnbrautarstöð í Reykjavík, hvenær fyrstu götuljósin komu, hugmyndir um flughöfn í Vatnsmýri mörgum árum áður en breski herinn kom til Reykjavíkur, skemmtileg skjöl um umferðaröngþveiti hesta og bíla í Reykjavík og hvernig jafnvel þurfti að setja reglur um stöður hesta fyrir utan verslunarhús eftir því sem umferðin jókst og reiðhraða þeirra á götum bæjarins. Þjóðskjalasafn Íslands opnar sýningu kl. 11 á skjaladaginn í lessal sínum að Laugavegi 162. Þar eru sýnd skjöl er fjalla um lagningu símans 1906, vikið er að nýrri stétt símriturum, sýnd skjöl um símagabb, úr póstreikningum árið 1900 og loks verða sýnd þar með skýringum sjaldgæf frímerki sem Þjóðskjalasafn varðveitir.