Þann 15. febrúar 2010 var skjalasafn Nýlistasafnsins formlega afhent Borgarskjalasafni Reykjavíkur til varðveislu. Um er að ræða um 12 hillumetra af skjölum og nær það allt frá stofnun safnsins árið 1978 til ársins 2007.
Um er að ræða bréfasafn, dagbækur, sýningargögn, fundargerðir stjórnar og aðrar fundargerðir, sýningaumsóknir, samningar við sýnendur, gögn um fjáröflun safnsins og önnur stjórnunargögn. Unnið er að skráningu safnsins og verður það opnað til notkunar á lesstofu Borgarskjalasafns frá 15. apríl nk.
Nýlistasafnið var stofnað árið 1978 og er sjálfseignarstofnun, rekin af samtökum listamanna sem nefnast Félag um Nýlistasafnið. Starfsemi þess hófst í 50m2 geymsluhúsnæði í Mjölnisholti, en árið 1979 flutti Nýlistasafnið í bakhús við Vatnsstíg 3b þar sem það var til húsa í 24 ár. Árið 2004 flutti Nýlistasafnið að Laugavegi 26 og það mun á næstu dögum opna í nýju húsnæði að Skúlagötu 28, þar sem Kexverksmiðjan Frón var áður til húsa.
Nýló, eins og safnið er nefnt í daglegu tali, hefur þá sérstöðu að hafa ávallt verið rekið af myndlistarmönnum. Félagið var stofnað í upphafi árs 1978 af framsæknu myndlistarfólki, en kjarni þeirra hafði áður starfað innan SÚM-hópsins. Fyrsti formaður Nýló var Níels Hafstein, en hann og Magnús Pálsson voru aðalhvatamenn að stofnun safnsins. Stofnfélagar voru um tuttugu en í dag eru meðlimirnir um 300 og er aðild að félaginu opin öllu áhugafólki um samtímalist. Fimm manna stjórn skipuð til tveggja ára í senn sér um rekstur í samræmi við lög félagsins og ákvarðanir aðalfundar.
• að vera miðstöð nýrra strauma og tilrauna í myndlist. • að efla hugmyndafræðilega umræðu um samtímalist. • að vera vettvangur fyrir unga myndlistarmenn. • að gegna almennum skyldum listasafns. • að safna og varðveita listaverk eftir félaga safnsins. • að halda utan um og skrásetja sögu samtímalistar á Íslandi. • að styrkja stöðu sína sem helsta samtímalistastofnun landsins.