Þjóðskjalasafn Íslands, Borgarskjalasafn Reykjavíkur og héraðsskjalasöfn um land allt opnuðu í dag sérstakan vef sem tileinkaður er gleymdum atburðum til að kynna starfsemi sína og safnkost. Slóðin er www.skjaladagur.is. Borgarskjalasafn fjallar þar um hasar í höfuðborginni, hættuna af hermönnum í borginni, stórkostlegt vöruúrval í verslunum og samkynhneigða. Nýr vefur er settur upp árlega á Norrænum skjaladegi sem í ár er laugardaginn 8. nóvember.
Norræni skjaladagurinn verður auk þess haldinn hátíðlegur hjá mörgum héraðsskjalasöfnum landsins með opnu húsi og sérstakri sýningu. Þema dagsins eru gleymdir atburðir eins og áður sagði. Í öllum héraðsskjalasöfnum er að finna skjöl sem rifja upp gleymda atburði og geyma upplýsingar um persónur, staði, verslunarmenningu, híbýli og margt fleira sem fallið hefur í gleymsku, en tilefni er til að rifja upp á ný. Skjalasöfnin vítt og breitt um land hyggjast einmitt kafa djúpt í hirslur sínar í leit að skjölum sem rifja upp slíka atburði.
Í Reykjavík verða Þjóðskjalasafn Íslands og Borgarskjalasafn Reykjavíkur með sameiginlega dagskrá hjá Þjóðskjalasafni við Laugaveg 162 milli kl. 11 og 15 laugardaginn 8. nóv. 2008. Þar verður safnkostur safnanna kynntur, m.a. með sýningum á frumskjölum sem tengjast þema dagsins. Einnig verða flutt ýmis erindi og þeirra á meðal er erindi Ólafs Ásgeirssonar, þjóðskjalavarðar, sem ætlar að rifja upp sögu fyrsta raðmorðingjans á Íslandi. Anna Agnarsdóttir prófessor mun rifja upp vin- og óvinveitt samskipti Íslendinga og Breta í aldanna rás og Gunnar Örn Hannesson sagnfræðingur segja frá því þegar skólapiltar voru barðir til bókar fyrr á öldum. Björn Jón Bragason sagnfræðingur ræðir Hafskipsmálið í ljósi nýfundinna skjala og að lokum mun Guðfinna Ragnarsdóttir, jarðfræðingur og kennari við MR, segja frá og sýna hvað jafnvel sum ómerkilegustu bréfsnifsi geta verið mikilvægar heimildir í ættfræðirannsóknum. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Boðið verður upp á kaffiveitingar og blöðrur í stíl við daginn.
www.skjaladagur.is
Þemu Borgarskjalasafns Reykjavíkur á Skjaladagsvefnum:
Hasar í höfuðborginni
Borðalagðir dátar og borgardætur
Orðunum lesbía og hommi hafnað
Búddingspúlver, Húsblas, Makaróní