Síðasti dagur sýningarinnar ,,Út fyrir sviga: Myndlist og Samtökin ´78" er sunnudaginn 18. ágúst nk. Af því tilefni verður Dr. Ynda Gestsson listfræðingur með leiðsögn fimmtudaginn 15. ágúst kl. 15.30 á íslensku og föstudaginn 16. ágúst kl. 15.30 á ensku.
Að sýningunni standa Borgarskjalasafn Reykjavíkur og Dr. Ynda Gestsson listfræðingur. Sýningin var sett upp í tilefni afmælisárs Samtakanna ´78 og er hluti af hliðardagskrá Hinsegin daga. Borgarskjalasafn Reykjavíkurvarðveitir skjalasafn Samtakanna '78 og fleiri skyldra samtaka. Sýningin var styrkt af mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði Reykjavíkur.
Sýningin ,Út fyrir sviga: Myndlist og Samtökin ´78" er í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, 1. hæð. Hún er opin sem hér segir:
Fimmtudag kl. 19-19
Föstudag kl. 11-18
Laugardag kl. 13-17
Sunnudag kl. 13-17
Þegar litið er yfir sögu Samtakanna ´78 kemur í ljós að á vegum þeirra og hinsegin listafólks hefur verið haldinn fjöldi myndlistarsýninga sem flestar eiga það sameiginlegt að hafa ekki ratað út fyrir hinsegin samfélagið og orðið hluti af opinberri listasögu íslensku þjóðarinnar.
Á sýningunni ,,Út fyrir sviga" er er gestum boðið í ferðalag með þeim myndverkum og skjölum sem þar eru sýnd, þar sem listafólkið og verk þeirra eru tekin út fyrir sviga í þeirri samfélagsjöfnu sem leitast við að gera listræna framleiðslu hinsegin fólks ósýnilega eða afgreiða hana sem smekkleysu eða klám.
Sýningin dregur fram hvernig menningarleg verðmæti hafa orðið til í hinsegin samfélaginu og bendir á nauðsyn þess að hlúð sé að þeim og þau gerð sýnileg. Verkin sem hér eru sýnd eru afar fjölbreytt varðandi efnistök, innihald og tækni.
Hér má sjá ljósmyndir frá opnun sýningarinnar.