Í kjölfar bréfs Jónasar B. Jónssonar fræðslufulltrúa hófst umræða hjá Fræðsluráði Reykjavíkur sem ákvað hinn 13. maí 1948 að gera tilraun með skólagarð fyrir börn og unglinga. Einar B. Malmquist ræktunarráðunautur leiddi verkefnið og sendi borgarstjóra greinargerð að hausti hvernig til tókst.
Samkvæmt greinargerð ræktunarráðunaut voru 68 börn innrituð og hófst skólagarðyrkjustarfið 5. júní sama ár. Fyrst og fremst var lögð áhersla á kartöfluræktun og var börnunum gert að annast hana í sameiningu. Börnin voru á aldrinum 10 ára til 14 ára og komu flest úr Austurbæjarskólahverfi og Laugarnesskólahverfi.
Nýjung í kennslu Reykjavíkurbarna
Námið í skólagarði Reykjavikur miðaðist fyrst og fremst við verklega fræðslu og að nokkru bóklega.
Sérstök áhersla var lögð á að vekja og örva áhuga nemenda á fegrun bæjarins og nytsemi ræktunar til aukinnar menningar og vetri afkomu landsmanna til þess að gefa börnum nokkra innsýn í gróðurríkið m.a. með flórukennslu.
Þá var hverjum nemenda úthlutaður 24m2 reitur sem þeir önnuðust sjálfir og fengu þeir að rækta hvítkál, grænkál, spínat, salat, hreðkur ofl. grænmeti auk lítilsháttar af blómjurtum.
Þrír kennarar skiptu með sér verkum, Friðjón Júlíusson búfræðikandídat, Halldór Ó. Jónsson garðyrkjufræðingur og Ingimar Jónsson barnakennari. Börnunum var skipt í flokka og hver flokkur starfaði tvisvar í vikur 2 stundir í senn. Kennslan fór eingöngu fram seinni hluta dagsins eða milli 15-19. Meðalstundafjöldi hvers nemanda var 90 stundir.