"Það jafnast ekkert á við það...."
Sýningin Sólskin í skjölunum varpar ljósi á tímabil þar sem utanlandsferðir urðu að möguleika fyrir meginþorra íbúa landsins. Við upphaf áttunda áratugarins hófu íslenskar ferðaskrifstofur að skipuleggja beinar ferðir til sólarlanda.
Samkeppnin á markaði var hörð og ýmislegt var reynt til að fanga athygli Íslendinga og laða þá út í sólina. Má þar nefna kynningarkvöld, fegurðarsamkeppnir, ferðahappdrætti og litríka og seiðandi ferðabæklinga sem ferðaskrifstofurnar gáfu út.
Sýningin byggir að grunni á einkaskjalasafni Ingólfs Guðbrandssonar, ferðafrömuðar, sem varðveitt er á Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Skjölin í safninu ná yfir 67 ára sögu, allt frá 1942 til 2009. Á þessum árum þróuðust ferðir frá því að vera menningarlegar ferðir sem stóðu fáum til boða yfir í að vera sólarlandaferðir sem flestir höfðu ráð á.