Fyrstu styrkirnir úr sjóðnum Rannsóknarstyrkir Bjarna Benediktssonar voru veittir við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu þann 30. apríl 2008, en þann dag voru 100 ár liðin frá fæðingu Bjarna Benediktssonar fyrrverandi forsætisráðherra.
Markmið sjóðsins er að styrkja rannsóknir á þeim sviðum lögfræðinnar, sem snerta innviði stjórnskipunarinnar og réttaröryggi borgaranna gagnvart leyfisvaldi og eftirliti stjórnvalda. Styrkir á svið hag- og stjórnmálasögu 20. aldar til okkar daga skulu veittir til að efla rannsóknir og dýpka skilning á umbreytingum í íslensku efnahagslífi, stjórnmálum og utanríkismálum á 20. öld. Stefnt er að því að sjóðurinn starfi í fimm ár og veiti á hverju ári allt að þrjá styrki á hvoru fræðasviði.
Tveir styrkir voru veittir til rannsókna á sviði hag- og stjórnmálasögu. Formaður dómnefndar var Anna Agnarsdóttir, sagnfræðiprófessor.
Skafti Ingimarsson, doktorsnemi í sagnfræði við Hugvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut styrk að upphæð 1.000.000 kr. fyrir rannsóknarverkefnið; Upphaf og þróun kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi.
Reynir Berg Þorvaldsson, meistaranemi í sagnfræði við hugvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut styrk að upphæð 500.000 kr. fyrir rannsóknarverkefnið; Öflun og úrvinnsla heimilda er varða leiðtogafundinn í Reykjavík 1986.
Þrír styrkir voru veittir til rannsókna á sviði lögfræði. Formaður dómnefndar var Róbert R. Spanó, lögfræðiprófessor.
Trausti Fannar Valsson, lögfræðingur og doktorsnemi í sveitarstjórnarrétti við lagadeild Háskóla Íslands hlaut styrk að upphæð 1.000.000 kr. fyrir rannsóknaverkefnið; Ólögbundin verkefni sveitarfélaga , og er liður í ritun doktorsritgerðar
Margrét Vala Kristjánsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við sömu deild, hlutu styrk að upphæð 500.000 kr. fyrir rannsóknaverkefnið; Inntak og beiting 15. gr. stjórnarskrárinnar .
Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, hlaut styrk að upphæð 500.000 kr. fyrir rannsóknaverkefnið; Vísindarannsóknir á heilbrigðissviði – lagaumgjörð stjórnsýslu og réttarvernd þátttakenda .
Við athöfnina opnaði jafnframt Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, vefsíðuna www.bjarnibenediktsson.is á vegum Borgarskjalasafns Reykjavíkur.
Á meðfylgjandi mynd eru, talið frá vinstri: Björn Bjarnason, Róbert R. Spanó, Anna Agnarsdóttir, Reynir Berg Þorvaldsson, Trausti Fannar Valsson, Margrét Vala Kristjánsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Skafti Ingimarsson, Oddný Mjöll Arnardóttir, Guðrún Bjarnadóttir og Valgerður Bjarnadóttir.