Opnist 9. október 2040 við hátíðlega viðhöfn

Í dag fékk Borgarskjalasafn afhent til varðveislu frá Borgarbókasafni sérstakan minningarkassa um John Lennon. Borgarbókasafn mun taka aftur við kassanum og opna hann við hátíðlega viðhöfn þriðjudaginn 9. október 2040.

Það var Sigurður Jakob Vigfússon á Tón- og mynddeild Borgarbókasafn sem færði Borgarskjalasafni kassann til varðveislu og tók Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður á móti honum.

Kassinn lá frammi í anddyri aðalsafns Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, 13. október til 20. nóvember 2010. Þann dag var sérstök dagskrá haldin í safninu í tengslum við móttöku eins af þremur minningarhylkjum um Lennon sem gerð voru í samstarfi Rock and Roll Hall of Fame and Museum, BoxofVison LLC og Yoko Ono.

Tilgangur íslenska kassans var m.a. að gefa aðdáendum Lennons hér á landi færi á að senda ýmislegt tengt honum og friðarboðskap hans inn í framtíðina.

Gert er ráð fyrir að kassinn verði opnaður 9. október árið 2040 þegar hundrað ár verða liðin frá fæðingu Lennons, á sama stað og tíma og innsiglið verður rofið á erlenda hylkinu sem Borgarbókasafni var falið að varðveita.

Eftirfarandi hlutir eiga að vera í boxinu við opnun þess þriðjudaginn 9. október árið 2040:

Miðar með kveðjum, teikningum og stuttum athugasemdum tengdum John Lennon og friðarboðskap hans.

Texti um kassann sem hengdur var upp á söfnum Borgarbókasafns og annar hliðstæður sem hékk fyrir ofan kassann í aðalsafni festur á Imagine Reykjavik veggspjaldið sem líka er í kassanum.

Afrit af veggspjaldi þar sem dagskráin 20. nóvember 2010 var auglýst og jafnframt vakin athygli á íslenska kassanum í A4 formati (upprunalega veggspjaldið var í A3).

Mynddiskur (dvd) með upptöku frá dagskránni.

Ávarp Önnu Torfadóttur, borgarbókavarðar sem flutt var á dagskránni.

Erindi Illuga Jökulssonar um Lennon sem Sylvia Hikins flutti í fjarveru hans .

Geisladiskur (cd) með útvarpsviðtali frá 17. nóvember 2010 þar sem Matthías Már Magnússon í Popplandi Rásar 2 ræddi við Sigurð Jakob Vigfússon, verkefnastjóra tón- og myndefnis um kassann, hylkið og komandi dagskrá í tengslum við móttöku þess.

Diskur á mp3 formati og wave formati (wave form audio format) með sama viðtali, videoklippum og myndum frá dagskránni og powerpointefni í tengslum við hana.

Geisladiskur (cd) með flytjendum í koverlagakeppni Rásar 2 sem haldin var í tilefni af því að 70 ár voru liðin frá fæðingu John Lennons.

Vonast er til þess að sem flestir geti verið viðstaddir þegar hylkið og minningarkassinn verða opnuð, sem eins og áður segir verður þriðjudaginn 9. október 2040.