Opið hús föstudag 7. júní í tilefni af Alþjóðlegum skjaladegi

Borgarskjalasafn verður með opið hús í dag 7. júní kl. 14 til 16 í tilefni af Alþjóðlegum skjaladegi. Safnið býður upp á sýningu um íþróttafélög, kaffi verður á könnunni og starfsmenn svara spurningum um skjalamál og safnið.

Sunnudaginn 9. júní er Alþjóðlegi skjaladagurinn sem skjalasöfn um allan heim taka þátt í með einum eða öðrum hætti. Á þessum degi er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Á Íslandi taka héraðsskjalasöfn landsins þátt í Alþjóðlega skjaladeginum og eru með opið hús föstudaginn 7. júní kl. 14-16. Á vef alþjóða skjalaráðsins ICA er hægt að skoða dagskrá safna annarra landa.

Héraðsskjalasöfnin eru tuttugu talsins um land allt. Meginhlutverk þeirra er að safna, varðveita og afgreiða úr skjölum bæjar- og sveitastjórna, stofnana þeirra og fyrirtækja. Jafnframt taka þau til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja á safnasvæðinu. Héraðsskjalasöfnin varðveita því söguna heima í héraði og gegna margvíslegu menningarlegu og stjórnsýslulegu hlutverki sem skilgreint er í lögum.

Héraðsskjalasöfnin tuttugu eiga með sér gott og öflugt samstarf. Félag héraðsskjalavarða á Íslandi var stofnað árið 2009 og það hefur staðið fyrir fræðslu fyrir starfsmenn héraðsskjalasafna og sveitarfélaga, haldið málþing, sýningar og verið með margvísleg samstarfsverkefni. Eitt af samstarfsverkefnunum var í skjalamálum grunnskóla og hafa flestir grunnskólar landsins bætt skjalavörslu sína og afhent eða undirbúið afhendingu eldri skjala til viðkomandi héraðsskjalasafns.

Eftirfarandi héraðsskjalasöfn verða með opið hús í dag 7. júní:

 

 

Tilvalið að kíkja við og spjalla við starfsmenn og eru allir velkomnir. Söfnin taka á móti einkaskjalasöfnum þennan dag eins og aðra daga.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur er í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, 3. hæð.