Í dag færði Eiríkur Símon Eiríksson Borgarskjalasafni Reykjavíkur að gjöf ómetanlegar heimildir um upphaf og rekstur hf. Nýja Biós sem stofnað var í Reykjavík árið 1912. Um er að ræða meðal annars sýningarleyfi frá 1912, undirrituð lög hlutafélagsins frá 1912, handskrifuð fundargerðarbók frá 1914 til 1944 og efnahagsbók frá 1916 til 1928.
Eíríkur Símon er tæplega áttræður trésmiður, Skagfirðingur skýr og hreinn og fyrrverandi borgarstarfsmaður til 30 ára. Áður starfaði hann hjá ríkinu við viðhald á eldri húsum stjórnarráðsins og Bessastöðum. Fyrir 10 árum síðan var hann á leið í sumarhús sitt og kom við á gömlu öskuhaugum borgarinnar að Gufunesi. Á haugunum sá hann liggjandi tvo stóra áhugaverða filmukassa með leðurhöldum, eins og bíóin notuðu til að senda filmur til sýningastaða á landsbyggðinni. Hann ákvað að hirða þá til að nota til geymslu í sumarbústað sínum, þar sem kassarnir væru góð vörn gagnvart músargangi. Nokkru seinna opnaði hann annan kassann og var hann tómur.
Hinn kassinn var fullur af skjölum. Að sögn Eiríks datt honum í hug að þetta væri örugglega bara til í einu eintaki og að óþarfi væri að henda þessu. Hann ákvað því að halda þessu til haga. Nýlega rakst Eiríkur á þessi gömlu skjöl og kom þá í hug að Borgarskjalasafni þætti fengur að þessu. Hann kom þessu því til varðveislu til safnsins í dag.
Borgarskjalasafn kann Eiríki bestu þakkir fyrir þessa einstöku hirðusemi og bendir á að viða geta leynst ómetanlegar heimildir til sögu Reykjavíkur.
Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður gluggar í skjölin með Eiríki Símoni Eiríkssyni.
Fréttir í fjölmiðlum af skjalafundinum:
Morgunblaðið
Bylgjan
Fréttablaðið
Ítarupplýsingar um Nýja Bíó
Fyrirtækið Nýja Bíó h/f var stofnað í Reykjavík 12. apríl árið 1912. Stofnendur þess voru bræðurnir Sturla og Friðrik Jónssynir, Sveinn Björnsson, Pétur Þ. J. Gunnarsson, Ólafur Johnsson, Carl Sæmundsson, og Pétur Brynjólfsson. Þetta voru mætir menn í bæjarlífinu, Carl var þekktur stórkaupmaður, eins og Ólafur, sem viðriðinn hafði verið fyrstu kvikmyndasýningarnar hér á landi, Sveinn var yfirdómslögmaður og átti síðar eftir að verða fyrsti forseti íslenska lýðveldisins og ljósmyndarinn Pétur bar að miklu leyti ábyrgð á því að Bíópetersen skolaði upp að íslenskum ströndum, svo sem áður hefur verið vikið að. Hann tók að sér framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
Fyrsta kvikmyndasýningin á vegum Nýja Bíós fór fram í austursal Hótels Íslands þann 4. júlí 1912. Salinn hafði bíóið tekið á leigu fyrir kvikmyndasýningar og gert á honum ýmiskonar breytingar, t.d. hækkað upp sætaraðir aftast og komið fyrir lyftanlegum sætum. Í þessu húsnæði starfaði hið nýja bíó fyrstu sjö árin, eða þar til leigusamningi þess var sagt upp.
Pétur gegndi stöðu framkvæmdastjóra kvikmyndahússins aðeins um nokkurra mánaða skeið, eða til áramóta 1913. Var þá leitað enn í smiðju Dana, og tók þarlendur maður við framkvæmdastjórn fyrirtækisins, Bang að nafni. Stjórnaði hann bíóinu til ársins 1914 að tók Guðmundur Jensson tók við, en frá og með árinu 1920 stjórnaði hann bíóinu ásamt Bjarna Jónssyni frá Galtafelli. Árið 1920 var stofnað nýtt hlutafélag um rekstur kvikmyndahússins, en í stjórn þess voru Bjarni Jónsson, Guðmundur Jensson og Lárus Fjeldsted, hæstaréttarlögmaður. Allir sátu þeir í stjórn fyrirtækisins til dauðadags, og Guðmundur stjórnaði bíóinu lengst af, eða þar til sonur hans, Sigurður tók við rekstrinum.
Í húsnæðishallærinu var afráðið að byggja nýtt hús undir starfsemina. Var hafist handa við byggingu þess í maí 1919, en því var valinn staður í miðbæ Reykjavíkur - við Austurstræti. Finnur Thorlacius var yfirsmiður og gerði hann jafnframt uppdrætti.
Líkt og var með byggingu Gamla bíós nokkrum árum fyrr, var ekkert til sparað í byggingu Nýja bíós. Gestir gripu andann á lofti er það var opnað með viðhöfn 19. júlí 1920. Var enda um stærsta samkomuhús landsins að ræða, með sæti fyrir 486 manns, og kostnaður við bygginguna var talinn nema á fjórða hundrað þúsund krónum.
Sýningarsalurinn sjálfur var skreyttur fjölda smárra rafljósa, rafljósakerum og stórri rafljósakrónu. Rafstöð var í kjallaranum, en einnig var sett upp miðstöðvarhitun í miðjunni, en það þótti þá mikið nýmæli. Stólarnir voru með fjaðursettum, en engir bekkir voru í húsinu. Sviðið eða senan var þannig úr garði gerð að koma mátti fyrir söngpalli fyrir allt að fjörtíu manns fyrir framan sjálft sýningartjaldið, enda var húsið byggt með ýmis konar menningarstarfsemi í huga. Á loftsvölum voru tvær hliðarstúkur og lausir stólar handa átta manns í hvorri fyrir sig.
Aðstæður til sýningar kvikmynda voru nú gjörbreyttar frá því sem áður var. Var af þeim sökum afráðið að vanda meira til sjálfra kvikmyndasýninganna. Hljófærasláttur var aukinn og sáu tveir menn um sláttinn að jafnaði hvert kvöld, en fyrir kom að fleiri hljóðfæraleikarar kæmu að sýningu kvikmynda. Þannig lék strengjakvartett undir sýningum á kvikmynd Guðmundar Kamban, Höddu Pöddu.
Árið 1945 voru gerðar miklar endurbætur á húsnæði Nýja Bíós og stóðu framkvæmdir yfir í tvö ár. Var þá m.a. komið fyrir spegilrúðu í innra andyri, sem Kurt Zier, kennari við Handíðaskólann, teiknaði. Auk þess var komið fyrir sandblásinni rúðu yfir stigapalli á svalir, en hana teiknaði Halldór Pétursson listmálari.
Um 1980 var enn ráðist í endurbætur á húsinu og ytra andyri stækkað nokkuð og hljóðkerfi allt endurbætt. Að sama skapi voru lítilvægar breytingar gerðar á húsinu um miðjan níunda áratuginn er Árni Samúelsson, eigandi Bíóhallarinnar í Mjódd, festi kaup á rekstri Nýja Bíós og breytti nafni þess í Bíóhúsið. Sá rekstur gekk þó ekki vel og var kvikmyndasýningum í húsinu hætt áður en níundi áratugurinn var úti. Þótti mörgum sjónarsviptir að kvikmyndahúsinu úr miðborginni.
Seinustu árin voru ýmsir skemmtistaðir til húsa í Nýja Bíó, t.d. Tunglið, en húsið skemmdist mjög illa í bruna 1998 og var síðar rifið. Þar stendur nú nýbygging tískuvöruverslunarinnar TopShop.
Heimild: Vefur Félags Rafiðnarmanna: http://www.rafis.is/fsk/bokin/kafli(6).htm