Ný stjórn Félags héraðsskjalavarða

Miðvikudaginn 24. september 2014 var haldinn aðalfundur Félags héraðsskjalavarða á Íslands. Kosin var ný stjórn fyrir starfsárið 2014-2015.

Í nýju stjórninni eru:

Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörður Kópavogi Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður í Reykjavík Snorri Guðjón Sigurðsson, héraðsskjalavörður Þingeyinga Birna Mjöll Sigurðardóttir, héraðsskjalavörður Mosfellsbæjar Þorsteinn Tryggvi Másson, héraðskjalavörður Árnesinga Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir, héraðsskjalavörður Akraness.

Félag héraðsskjalavarða á Íslandi var stofnað vorið 2009. Skráðir félagsmenn eru allir héraðsskjalavarðir landsins, 20 talsins. Aðalfundur er haldinn árlega en félagsfundir og stjórnarfundir eru haldnir símleiðis til að spara ferðakostnað.

Markmið félagsins er að vera virkur samstarfsvettvangur héraðsskjalavarða til að styrkja héraðsskjalasöfnin, hag þeirra, faglegt frumkvæði, starfsemi og verkefni sem snúa að skjalavörslu í sveitarfélögum á Íslandi.

Markmiðum félagsins skal reynt að ná m.a. með ýmiskonar fræðslu- og kynningarstarfsemi svo sem fundum, námskeiðum, fyrirlestrum, málþingum og útgáfu og samstarfi við einstaklinga, stofnanir og samtök er koma með einum eða öðrum hætti að skjalavörslu.

Stjórnin skiptir með sér verkefnum, en engin formleg embætti eru innan félagsins, enginn formaður eða aðrir stjórnendur heldur starfa bæði stjórn og félag á jafningjagrundvelli. Engin félagsgjöld eru í félaginu.

Félagsmenn taka árlega þátt í Alþjóðlegum skjaladegi með fjölbreytti dagskrá, félagið hefur staðið fyrir málþingum, ráðstefnum, námskeiðum fyrir starfsmenn héraðsskjalasafna og fyrir sveitastjórnarmenn, staðið fyrir átaki í söfnun skjala kvenfélags, skjala sóknarnefnda og nú síðast skjala íþróttafélaga.