Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri (sést hér með Svanhildi Bogadóttur borgarskjalaverði) heimsótti í síðustu viku nýja skjalageymslu Borgarskjalasafn Reykjavíkur að Vatnagörðum 28. Geymslan er tæplega 600 fm að stærð og leysir eldra geymsluhúsnæði í Mosfellsbæ af hólmi. Farið hafa fram gagngerar endurbætur á húsnæðinu, og komið hefur verið upp viðamiklu hillukerfi og fullkomnu öryggiskerfi. Húsnæðið á að geta tekið við skjölum borgarstofnana næstu 10 árin miðað við könnun á skjalamagni í stofnunum borgarinnar. Eldri skjöl borgarinnar verði því öll varðveitt í hillum við góðar aðstæður. Áætlað er að hillurými í nýju geymslunni sé um 4.000 hillumetrar.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur var stofnað árið 1954 og flutti árið 1999 í núverandi húsnæði sitt að Tryggvagötu 15. Í 1.500 fm húsnæði þess í Tryggvagötu er afgreiðsla, lesstofa, aðstaða fyrir fræðimenn, skrifstofur safnsins, vinnuaðstaða, öryggisgeymsla fyrir elstu skjöl, öryggisgeymsla fyrir trúnaðarskjöl og aðalgeymsla safnsins. Geymslan að Vatnagörðum er til viðbótar við geymslur í Tryggvagötu 15 og eins og áður sagði er áætlað að hún geti tekið við öllum varðveisluskjölum borgarstofnana og fyrirtækja næstu 10 árin.
Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur eru nú varðveittir um 8.000 hillumetrar af skjölum og eru þau elstu frá frá 16. öld en almennt eru þau frá kaupstaðarstofnuninni 1786. Árleg aukning á skjölum eru um 250-300 hillumetrar á ári. Um 2.500 fyrirspurnir berast árlega á safnið auk þess sem sýningar þess hafa verið vel sóttar. Hjá Borgarskjalasafni starfa 8 starfsmenn.
Í nýju geymslunni eru m.a. varðveitt skattframtöl Reykvíkinga, skjöl veitustofnana, eldri bókhaldsskjöl borgarinnar og fleira.
Borgarskjalasafn er öllum opið án aðgangeyris og varðveitir það skjöl einkum skjöl borgarstofnana og borgarfyrirtækja.