Neyðarráðstafanir í Reykjavík 1916-1919

Borgarskjalasafn Reykjavíkur stendur nú fyrir sýningu á skjölum sem endurspegla þrengingarnar sem Reykvíkingar upplifðu á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar. Um er að ræða skjöl sem lýsa eldneytis- og matarskorti í borginni ásamt sýnishornum af skömmtunarseðlum. Á þeim tíma var mikil fátækt og gífurlegur skortur á matvælum og eldsneyti og varð að taka upp skömmtun á nauðsynjavörum.

Á sýningunni eru einnig skjöl sem lýsa óánægju kvenna með skipan í nefndir í dýrtíðarmálum ásamt tillögum til úrbóta frá Kvenréttindafélagi Íslands og Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Ennfremur er um að ræða bréf frá áhyggjufullum feðrum til bæjaryfirvalda með beiðnum um dýrtíðarlán og atvinnubótarvinnu.

Í Sögu Reykjavíkur sem út kom 1994 (Bærinn vaknar. 1870-1940 - síðari hluti) lýsir Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur þeim miklu áhrifum sem fyrri heimsstyrjöldin hafði á lífskjör Reykvíkinga. Hagur launþega hríðversnaði og húsnæðisskortur varð verulegur. Landsstjórnin tók til óspilltra málanna við að tryggja matvæla- og eldsneytisbirgðir í landinu og tók utanríkisverslunina að hluta í sínar hendur.

Bæjarstjórn Reykjavíkur víkkaði einnig út starfssviðið með því að finna leiðir til þess að bregðast við atvinnuleysi, húsnæðiseklu og vöruskorti borgarbúa. Bæjarstjórnin setti meðal annars á stofn sérstaka dýrtíðarnefnd til þess að útvega borgarbúum vörur á viðráðanleg verði. Á árabilinu 1916-1918 ríkti neyðarástand í Reykjavík. Skömmtun hófst þá á ýmsum nauðsynjavörum og voru gefnir út sérstakir skömmtunarseðlar til kaupa á mjólk, sykri, kolum, olíu, smjörlíki, hveiti, brauði og öðrum kornvörum. Þar við bættist frostaveturinn mikli 1918 og spánska veikin.

Sýningin er í húsakynnum safnsins að Tryggvagötu 15 og opin til 28. nóvember nk alla virka daga kl. 10-16 og er aðgangur að henni ókeypis.

Sýning var sett upp sem hlut af Norrænum skjaladegi 8. nóvember sl. en frekar má fræðast um hann á síðunni http://www.skjaladagur.is

 _____________________________________

Ítarefni - skönnuð frumskjöl:

Þann 7. júlí 1917 hélt Kvenréttindafélag Íslands almennan kvennafund í Bárubúð og sóttu hátt á 300 konur fundinn. Á fundinum komu fram mótmæli gegn þeim ráðstöfunum landsstjórnar og bæjarstjórnar, að engar konur væru skipaðar í dýrtíðarnefndir þær sem þessi stjórnarvöld hefðu skipað. Fundurinn skorða á stjórnvöld að bæta fleiri konum í verðlagsnefnd, matarnefnd og húsaleigunefnd. Sjá má fundargerð fundarins og fleiri skjöl þessu tengd hér (PDF 5 MB).

Sívaxandi skortur var á kolum og gasi til upphitunar og lýsingar í Reykjavík. Gasnefnd Reykjavíkur tilkynnti stjórnarráðinu 12. febrarú 1917 að hún hefði ákveðið að hætt skuli að kveikja á götuljósum í beinum og birt ákorun til gosnotenda að spara gasið. Þann 21. febrúar 1917 samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur að hætt yrði að selja gas til ljósa í sölubúðum, kaffihúsum, veitingahúsum og opinberum samkomuhúsum. Þó var undanþága fyrir Leikfélag Reykjavíkur á leikkvöldum ef framleiðslugeta Gasstöðvarinnar leyfði. Sjá má skjöl varðandi málið hér. (PDF 2 MB)