Námskeiðsröð fyrir leikskóla borgarinnar

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar í samvinnu við Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur unnið að umbótum á skjalavörslu leikskóla borgarinnar.

Unnar hafa verið leiðbeiningar um skjalavörslu leikskóla, gerður málamykill og skjalavistunaráætlun sem hefur verið samþykkt af sviðsstjóra og borgarskjalaverði.

Nú í september 2014 stóðu Borgarskjalasafn og skóla- og frístundasvið fyrir sex tveggja tíma námskeiðum fyrir stjórnendur leikskóla borgarinnar.

Á námskeiðunum fjallaði Sonja Wiium lögfræðingur á Borgarskjalasafni um lög og reglurgerðir er varða skjalamál og upplýsingarétt; Gísli Jón Kristjánsson verkefnastjóri á Borgarskjalasafni kynnti niðurstöður könnunar um ástand skjalavörslu hjá leikskólum; Eygló Traustadóttir, skjalastjóri skóla- og frístundaviðs gaf leiðbeiningar um hvernig eigi að standa að skjalavörslu leikskóla og að lokum kynnti Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður skjalavistunaráætlun, verklag framundan í skjalamálum og hvernig eigi að standa að frágangi skjala og skilum skjala til Borgarskjalasafns.

Námskeiðin sex voru vel sótt og mynduðust fjölmargar spurningar og líflegar umræður.

Í kjölfarið á námskeiðum fyrir stjórnendur leikskóla, býðst þeim að fá starfsmenn í heimsókn til að leiðbeina á staðnum og svara þeim spurningum sem einstakir leikskólar hafa um skjalamál sín. Beiðnir sendist til eyglo.traustadottir@reykjavik.is eða borgarskjalasafn@reykjavik.is.

Áður stóðu skóla- og frístundasvið og Borgarskjalasafn fyrir sambærilegri vinnu með grunnskólum Reykjavíkur. Þá voru einnig haldin námskeið fyrir skólastjórnendur og ritara skólanna og allir grunnskólar Reykjavíkur heimsóttir, þar sem veitt var ráðgjöf um skjalavörslu. 

Hér eru svipmyndir frá nokkrum námskeiðanna.

https://www.facebook.com/media/set/?set=a.10152731762391252.1073741858.33433176251&type=1