Afmælissýning Borgarskjalasafns Reykjavíkur í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur stendur yfir til og með sunnudegi 21. september 2014. Hluti af henni er innsetning Guðrúnar Sigríðar Haraldsdóttur myndlistarmanns.
Sýningin er samstarfsverkefni Borgarskjalasafns Reykjavíkurog Guðrúnar Sigríðar Haraldsdóttir hönnuðar og myndlistamanns og sett upp í tilefni af 60 ára afmæli safnsins.
Á sýningunni er varpað upp svipmyndum af þeim ríka safnkosti sem Borgarskjalasafn varðveitir með áherslu á síðastliðin 60 ár frá því safnið var stofnað.
Sýnd verða skjöl bæði frá einstaklingum, Reykjavíkurborg og af prentuðu efni tengdu Reykvíkingum sem líklegt er að kveiki minningar hjá mörgum borgarbúum.
Safnið varðveitir skjöl sem tengjast lífi flestra Reykvíkinga á einn eða annan hátt.
Hluti af sýningunni er innsetning Guðrúnar Sigríðar „Bönd“, sem er byggð á efni safnsins ásamt nýju efni sem hún hefur safnað sérstaklega fyrir verkið.
Innsetningin er unnin með blandaðri tækni með efni og aðferð sem Guðrún Sigríður hefur þróað í verkum sínum á síðastliðnum árum. „Bönd“ eins og mörg verk Guðrúnar Sigríðar er leit að því sem sameinar okkur – samnefnara samfélags-sálarinnar og byggist á þörf okkar til að skipuleggja, raða og flokka tilvist okkar og umhverfi.
Einmitt þessi atriði skírskota sérstaklega til starfsemi Borgarskjalarsafns sem byggir á söfnun, varðveislu og framsetningu efnis.
Eins og áður sagði opnar sýningin MANSTU? miðvikudaginn 3. september í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur og hún mun standa til 21. september.
Hún er opin kl. 8-19 virka daga og helgar kl. 12-18. Allir eru velkomnir og er aðgangur ókeypis.