MANSTU? - Afmælissýning Borgarskjalasafns opnar 3. sept. nk.

Miðvikudaginn 3. september nk. kl. 16.00 opnar borgarstjóri sýninguna MANSTU? í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.

Sýningin er samstarfsverkefni Borgarskjalasafns Reykjavíkur og Guðrúnar Sigríðar Haraldsdóttir hönnuðar og myndlistamanns og sett upp í tilefni af 60 ára afmæli safnsins.

Á sýningunni er varpað upp svipmyndum af þeim ríka safnkosti sem Borgarskjalasafn varðveitir með áherslu á síðastliðin 60 ár frá því safnið var stofnað.

Sýnd verða skjöl bæði frá einstaklingum, Reykjavíkurborg og af prentuðu efni tengdu Reykvíkingum sem líklegt er að kveiki minningar hjá mörgum borgarbúum.

Safnið varðveitir skjöl sem tengjast lífi flestra Reykvíkinga á einn eða annan hátt.

Hluti af sýningunni er innsetning Guðrúnar Sigríðar „Bönd“, sem er byggð á efni safnsins ásamt nýju efni sem hún hefur safnað sérstaklega fyrir verkið.

Innsetningin er unnin með blandaðri tækni með efni og aðferð sem Guðrún Sigríður hefur þróað í verkum sínum á síðastliðnum árum. „Bönd“ eins og mörg verk Guðrúnar Sigríðar er leit að því sem sameinar okkur – samnefnara samfélags-sálarinnar og byggist á þörf okkar til að skipuleggja, raða og flokka tilvist okkar og umhverfi.

Einmitt þessi atriði skírskota sérstaklega til starfsemi Borgarskjalarsafns sem byggir á söfnun, varðveislu og framsetningu efnis.

Eins og áður sagði opnar sýningin MANSTU? miðvikudaginn 3. september í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur og hún mun standa til 21. september.

Hún er opin kl. 8-19 virka daga og helgar kl. 12-18. Allir eru velkomnir og er aðgangur ókeypis. 

______________________

Ýtarefni:

Guðrún Sigríður vinnur í blandaðri tækni sem hún hefur þróað á síðastliðnum árum. Verkin eru unnin í kringum minningar og hugmyndina um þær tilfinningalegu byrðar sem lífið leggur á manneskjurnar og hvernig þeim gengur að takast á við þær og vinna úr þeim. Í verkum sínum vinnur Guðrún Sigríður að nokkru út frá formum og aðferðum leikhússins.

Guðrún Sigríður útskrifaðist sem  leikmynda- og búningahönnuður frá Wimbleton School of Art and Design í Lundúnum og starfaði sem slíkur á Íslandi, Englandi og í Danmörku um árabil, í leikhúsum, kvikmyndum og sjónvarpi.

Síðastliðin 17 ár hefur Guðrún Sigríður búið í Lundúnum þar sem hún hefur unnið að list sinni. Hún hefur sýnt verk sín á fjölda samsýninga og einkasýninga, unnið innsetningar og skreytilist, bæði innan- og utanhúss, einkum fyrir opinbera aðila en einnig einkaaðila.

Til að drepa aðeins á því helsta þá hefur Guðrún Sigríður á síðast liðnum fimm árum haldið fimm einkasýningar, þar af tvær hér á landi, Fortíðarflögur í Breiðdalssetri og Álit í Sím-salnum í Reykjavík. Í báðum þeim sýningum fjallar Guðrún Sigríður um samruna fortíðar og nútíðar í huga einstaklingsins, baráttuna við fortíð og minningar, en einnig gleðina sem býr í upprifjun og tilfinningu fyrir eigin sögu.

Meðal verka fyrir opinbera aðila gerði Guðrún Sigríður skreytilistaverk fyrir nýja umferðamiðstöð í Northhampton sem opnaði snemma á þessu ári. Þar notar hún gang sólar til að varpa textum og formum í síbreytilegu mynstri á og yfir gesti og gangandi gegnum loftpúðaþak stöðvarinnar sem einnig er hluti listaverksins.

Einnig má nefna steinskúlptúr á skrifstofubyggingu við Grafton Street í Westminster, unnið fyrir Lundúnaborg. Verkið heitir Recalling, Revealing, Remaining og byggir á götumyndum af Grafton Street frá fyrstu tíð, allt frá því að lóð skrifstofubyggingarinnar var skrúðgarður.

Guðrún Sigríður vann einnig ljósaskúlptúr fyrir Wyvern menningarmiðstöðina í Swindon. Verkið heitir Link og er innsetning þar sem eins konar ljósaborði umvefur eitt horn byggingarinnar, gengur inn og út um gluggana svo að þessi hluti hússins virðist ljóslifandi.

Sýningin „bönd“ eins og mörg verk Guðrúnar Sigríðar er leit að því sem sameinar okkur – nokkurs konar samnefnara samfélags-sálarinnar og byggist á þörf okkar til að skipuleggja, raða og flokka tilvist okkar og umhverfi. Þannig skírskotar þessi sýning sérstaklega til starfsemi safnsins; – söfnun, varðveislu og framsetningu efnis sem varðar líf einstaklinganna í samfélaginu, skipulag samfélagsins og samruna þessara tveggja þátta.

Frekari upplýsingar:

www.gsharaldsdottir.wordpress.com

www.inabundance.co.uk

gudrun@inabundance.co.uk