Borgarskjalasafn Reykjavíkur heldur áfram birtingu ljósmynda úr safnkosti safnsins. Hluti af stafræningu safnkosts Borgarskjalasafns síðustu ára hefur verið meðal annars að skanna inn slík ljósmyndasöfn til langtíma varðveislu. Að þessu sinni munum við taka fyrir ljósmyndir úr einkaskjalasafni Sigurborgar Hjaltadóttur nr. E-357.
Sigurborg Hjaltadóttir (Bogga) fæddist 27. febrúar 1926 í Hólum í Nesjahreppi Austur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hennar voru Anna Þórunn Vilborg Þorleifsdóttir húsfreyja(f. 1893 - d. 1971) og Hjalti Jónsson, bóndi og hreppstjóri (f. 1884 - d. 1971).
Systkini Sigurborgar voru Sigurður (1923-2008), Guðmundur Jón (1924-1989), Halldóra (1929-2017) og Þorleifur (1930-2018) og Eiríkur (1935-1943). Foreldrar Sigurborgar misstu stúlku nýfædda (1934-1934) og dreng fárra mánaða gamlan sem hét Þorleifur (1927-1927). Uppeldisbróðir Sigurborgar var Hjálmar Kristinsson (1945-2013).
Sigurborg ólst upp í Hólum. Þar tók hún virkan þátt í starfi Ungmennafélagsins Mána. Á árunum 1943-1945 stundaði hún nám í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað og var þar vefnaðarkennari einn vetur nokkrum árum síðar. Einn vetur var hún við lýðháskóla í Voss í Noregi. Sigurborg starfaði sem símstöðvarstjóri í Hólum og gegndi því starfi til ársins 1955 þegar hún flutti til Reykjavíkur og hóf þar störf við Búnaðarbanka Íslands. Þar vann hún til ársins 1994 og hafði gegnt þar ýmsum störfum.
Sigurborg hélt heimili með vinkonu sinni, Sigríði Stefaníu Gísladóttur (f. 1920 - d. 2011) sjúkraþjálfara og syni hennar Gísla Sveini Loftssyni (f. 1954).
Sigurborg lést 21. ágúst 2011.
Hægt er að lesa nánar um æviágrip og skjalaskrá skjalasafns Sigurborgar hér.
Ef þú hefur einhverja ábendingu varðandi ljósmyndirnar er hægt að senda okkur línu í gegnum netfangið okkar borgarskjalasafn@reykjavik.is eða setja inn athugasemd á myndirnar á facebook síðu safnsins sjá hér.