Að þessu sinni birtir Borgarskjalasafn Reykjavíkur ljósmyndir úr skjalasafni systkinanna Hólmfríðar Kragh (f. 29. ágúst 1913 - d. 22. júní 1997) og Kristjáns Ólafssonar (f. 28. maí 1927 - d. 6. júlí 2001). Áður hefur Borgarskjalasafn Reykjavíkur fjallað um skjalasafn Hólmfríðar og Kristjáns í tengslum við Norræna skjaladaginn árið 2017 en þar var yfirskriftin Hús og heimili. Fyrir áhugasöm er hægt að nálgast þá umfjöllun hér.
Í skjalasafninu eru vel yfir þriðja þúsund ljósmynda sem sýna frá lífi Hólmfríðar og eiginmanns hennar Hans Kragh (f. 24. desember 1908 - d. 9. desember 1978) og bróður hennar Kristjáns. Þó áður hafi verið fjallað um skjalasafnið og birtar nokkrar ljósmyndir fannst okkur kjörið tækifæri að birta enn fleiri af þeim fjölmörgu áhugaverðu og skemmtilegu ljósmyndum sem safnið hefur að geyma. Systkinin Hólmfríður og Kristján voru ansi samrýnd en Kristján bjó meðal annars hjá Hólmfríði og Hans í íbúð þeirra að Birkimel 6B í rúm 23 ár eða þar til hann keypti sér íbúð í sömu blokk. Hvorki hjónin Hólmfríður og Hans eignuðust afkomendur né Kristján. Mikill gestagangur var á heimili þeirra og af ljósmyndunum að dæma var oft mikið líf og fjör á Birkimel og í raun hverju sem þau tóku sér fyrir hendur. Hægt er að nálgast skjalaskrá skjalasafnsins hér.
Hægt er að senda inn ábendingar vegna ljósmyndanna hér eða setja inn athugasemd á myndirnar á facebook síðu safnsins sjá hér.
Við látum ljósmyndirnar tala sínu máli. Góða skemmtun.