Kynning á frumvarpi til nýrra laga um Þjóðskjalasafn Íslands

Unnið hefur verið að heildarendurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Að sögn ráðuneytisins var meginmarkmið endurskoðunarinnar að einfalda stjórnsýslu á málefnasviði Þjóðskjalasafnsins, skýra hana frekar með hliðsjón af fjölþættu hlutverki safnsins og stuðla að hagkvæmni og skilvirkni í rekstri þess. Nú hefur verið lögð fram tillaga að frumvarpi til nýrra laga um Þjóðskjalasafn Íslands þar sem ofangreind atriði hafa m.a. verið höfð til hliðsjónar.

Lög um Þjóðskjalasafn Íslands snerta öll stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga og hafa t.d. áhrif á málsmeðferð þeirra um hvernig skjöl eru skráð og varðveitt. Verði frumvarpið að lögum teljast þau í eðli sínu til almennra stjórnsýslulaga rétt eins og t.d. stjórnsýslulög nr. 37/1993, upplýsingalög nr. 50/1996 og lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál.

Í frumvarpinu er lagt til að um upplýsingarétt almennings fari samkvæmt upplýsingalögum og lögum um upplýsingarétt um umhverfismál fyrstu 30 árin frá því að skjal verður til, á þeim réttarsviðum sem falla undir gildissvið þeirra laga. Eftir það fer um aðgangsrétt almennings samkvæmt lögum um Þjóðskjalasafn Íslands en í frumvarpinu er m.a. fjallað um tímamörk þess hvenær takmarkanir á upplýsingarétti almennings, sem fram koma í fyrrnefndum lögum, falla niður og upplýsingaréttur almennings rýmkar að sama skapi.

Helstu breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér frá gildandi lögum um Þjóðskjalasafn Íslands eru eftirfarandi:

Í því koma í fyrsta skipti fram efnisreglur þar sem tekið er af skarið um inntak þess réttar sem almenningur og aðrir eiga til aðgangs að skjölum Þjóðskjalasafns Íslands.

Ásamt ákvæðum upplýsingalaga nr. 50/1996 og laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál munu ákvæði þessa frumvarps til laga um Þjóðskjalasafn Íslands mynda heildstætt og samræmt kerfi um upplýsingarétt almennings á þeim réttarsviðum sem falla undir gildissvið þeirra.

Allar reglur frumvarpsins eru byggðar á því að þær taki til hvers konar skjala og skiptir þá ekki máli hvort skjal verður til eða er varðveitt á rafrænu formi eða í pappírsformi.

Í frumvarpinu er skýrari upptalning en áður á því hverjir teljist skilaskyldir aðilar samkvæmt lögunum en ákvæði þar að lútandi koma fram í 4. gr.

Í III. kafla frumvarpsins koma fram ákvæði um skjalavörslu stjórnvalda. Ákvæðin eru töluvert breytt frá gildandi lögum þar sem þess er freistað að skýrar liggi fyrir hver beri ábyrgð á skjalastjórn og skjalavörslu stjórnvalda, í hverju meginskyldurnar eru fólgnar og loks hvaða viðurlög liggja við ef reglurnar eru brotnar. Með þessum ákvæðum er m.a. komið til móts við ábendingar þingmannanefndar um skýrari stjórnsýslu í tilefni af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Lagt til að úrskurðarnefnd um upplýsingamál skeri úr málum þar sem upp kemur ágreiningur um aðgang að skjölum í Þjóðskjalasafni Íslands.

Hér með er vakin athygli á þessari vinnu. Hægt er að nálgast texta frumvarpsins ásamt greinargerð sem fylgir því á vef ráðuneytisins.

Þeim sem vilja koma á framfæri ábendingum vegna frumvarpsins er bent á að senda þær til mennta- og menningarmálaráðuneytis á netfangið postur@mrn.is eigi síðar en 31. desember nk.

(úr fréttatilkynningu mennta- og menningarmálaráðuneytis)