Margar fjölskyldur eiga í fórum sínum uppskriftabækur sem hafa að geyma töfra eldhússins. Stundum hefur kaffidreitill litað blaðsíðurnar eða smjörið kannski máð blekið. Hvað sem því líður eru uppskriftirnar sem þar finnast oft ómissandi í aðdraganda jólanna og fátt jólalegra en að finna smákökuilminn á aðventunni. Flestar uppskriftabækur og uppskriftir hvort sem þær eru handskrifaðar, blaðaúrklippur, matreiðslubækur eða bæklingar eru að langmestum hluta að finna í skjalasafni kvenna. Þó eru nokkur dæmi þess að skjalasöfn karla innihaldi slíkar heimildir - líklegt þykir þó að skjölin hafi tilheyrt eiginkonum, mæðrum, systrum eða öðrum kvenkyns skyldmennum skjalamyndara.
Hér er brot af þeim fjölmörgum uppskriftum sem finna má í einkaskjalasöfnum sem varðveitt eru á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.
Uppskriftabók Sigríðar Þórhildar Tómasdóttur (f. 1899 - d.1990) úr skjalasafni hennar nr. E-555
Hér má sjá uppskrift af karamell-búðingi en búðingur í eftirrétt eftir hátíðarmatinn þekkist eflaust vel hjá sumum. Mörg hafa kannski alist upp við Ilma eða Royal búðing en önnur muna eftir búðingum sem gerðir voru frá grunni.
Piparkökur má eflaust finna á flestum heimilum í aðdraganda jólanna - spurning er hvort að uppskriftin hafi breyst mikið á tæpri öld? Við vitum þó ekki hversu hátíðleg kartöfluterta sé eða hafi verið á árum. Kannski var vinstri síða þessara opnu einfaldlega notuð af Sigríði sem krassblað til þess að pára niður hina og þessa uppskrift.