Iðnsýningin í Reykjavík 17. júní 1911

Fyrir nákvæmlega öld síðan fögnuðu Íslendingar aldarafmæli sjálfstæðisbaráttuhetjunnar Jóns Sigurðssonar forseta. Í Reykjavík bar hæst á góma stofnun Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu. Það sem færri vita er að áður en Háskóli Íslands var formlega stofnaður var opnuð stór og vegleg sýning í Barnaskóla Reykjavíkur (Miðbæjarskólanum). Frumkvæði að því að halda Iðnsýningu í Reykjavík 1911 kom frá Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur, sem stofnað hafði verið árið 1867. Páll Þorkelsson gullsmiður mun fyrstur, með greinum í Ingólfi 1907, hafa vakið máls á því að fæðingardagur Jóns Sigurðssonar væri réttur dagur til þess að hefja sýninguna. (1,2) En oftar en einu sinni hafði staðið til að halda aðra og betri sýningu en þá sem Iðnaðarmannafélagið hafði staðið fyrir árið 1883.

Skjalasafn Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur er einmitt að finna hér í Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Og einnig einkaskjalasafn Jóns Halldórssonar trésmiðs sem hvað ötulast hafði unnið að undirbúningi sýningarinnar. Í safni Jóns er meðal annars að finna hálspening merktan: „Iðnsýningin í Reykjavík 17. júní 1911. Verkið lofar meistarann”. Hér fyrir neðan er tekin lýsing á aðdraganda og framkvæmd Iðnsýningarinnar 1911 í löngu máli úr grein í Tímariti iðnaðarmanna sem fjallaði um sögu Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur. Stafsetning hefur verið færð til nútímahorfs.

Á fundi Iðnaðarmannafélagsins 5. maí 1908 var samþykkt, að félagið skyldi gangast fyrir því, að iðnsýning fyrir allt Ísland yrði haldin í Reykjavík árið 1911. Kosin var þriggja manna nefnd til þess að hafa forgöngu í málinu og hlutu kosningu: Knud Zimsen, Th. Krabbe og Jón Halldórsson. Kn. Zimsen gekk síðar úr nefndinni, en Jónatan Þorsteinsson kom í hans stað. Á fundi 25. nóv. 1908 var samþykkt tillaga frá sýninganefndinni um að hún fengi heimild til að verja 500 kr. úr sjóði félagsins til undirbúnings sýningarinnar.

Nefndin tók nú til starfa og vann af kappi. Fyrst lá fyrir að afla fjár. Hún skrifaði Alþingi 1909 og bað um styrk úr Landssjóði. Þingið samþykkti að veita 2.000 krónur til sýningarinnar, ef jafnmikið fé kæmi annarstaðar frá. Þá skrifaði nefndin Thorvaldsensfélaginu og Búnaðarfélaginu og bað þau að styrkja sýninguna með fé og taka þátt í henni. Búnaðarfélagið sá sér ekki fært að taka þátt í sýningunni, en með bréfi dagsettu 21. des. 1910 bauð það nefndinni 200 krónur til þess að verðlauna muni, sem sérstaklega kæmu við landbúnaði. Thorvaldsensfélagið lofaði með bréfi dags. 23. apríl 1910 að taka þátt í sýningunni, og veitti 300 krónur til hennar, en tók það fram um leið, að það vildi ekki bera aðra fjárhagslega ábyrgð af henni.

Bæjarstjórn Reykjavíkur lánaði Barnaskólahúsið með bréfi dags. 21. 1910, til þess að halda sýninguna í, og veitti ennfremur 1.000 krónur til hennar. Þá skrifaði nefndin iðnaðarfélögum þeim, sem til voru út um land, og bað þau styrktar. Þau tóku öll vel í málið. Enn fremur bað hún allar sýslunefndir og bæjarstjórnir á landinu um fjárstyrk. Sumar þeirra veittu 25—100 krónur til sýningarinnar, en sumar ekkert. Ýmsir merkismenn víðsvegar um land létu nefndinni einnig í té nokkurn stuðning.

Árið 1909 átti að halda mikla sýningu í Árósum í Danmörku. Var Iðnaðarmannafélaginu boðið að taka þátt í henni. En því fannst ekki ráðlegt að gera það, þar sem ákveðið hefði verið, að halda almenna sýningu í Reykjavík 1911. Hinsvegar virtist félagsmönnum, að það væri nauðsynlegt að senda menn þangað til þess, að kynnast sýningunni, og læra af Dönum hvernig sýningu skyldi haga. —

Á fundi 7. ágúst 1909 var samþykkt svo hljóðandi tillaga: »Fundurinn telur rétt, að iðnsýningarnefndin í samráði við stjórn félagsins, verji nokkru fé, alt að 600 krónum til styrktar tveimur mönnum að fara á Árósa-sýninguna í því skyni, að þeir síðar meir láti iðnsýninguna 1911 njóta þeirrar reynslu og þekkingar, er þeir öðlast«.

Jón Halldórsson fór til Arósa á sýninguna og á fundi Iðnaðarmannafélagsins 6. nóv. 1909 gaf hann ítarlega lýsingu af henni. Nokkrar umræður urðu út af því, og voru sumir félagsmenn vondaufir um, að hægt væri að halda sómasamlega sýningu í Reykjavík, en Jón sagði, að sér væri ljóst, að þó íslensk iðnsýning gæti ekki komist í hálfkvisti við þá dönsku, mundi hún samt hafa mikla þýðingu fyrir íslenskan iðnað og íslenska menningu. Sýningin hófsf 17. júní 1911. Klemens Jónsson landritari opnaði hana með ræðu. Enn fremur talaði þar formaður sýningarnefndarinnar, Jón Halldórsson trésmiður.

Á sýningunni voru um 1100 munir. Dýrasti gripurinn (gullbelti) var virtur á 6.000 krónur. Allir munirnir á sýningunni voru vátryggðir fyrir 65 þúsund krónur. Auk hinnar eiginlegu iðnsýningar var einnig sýndur fjöldi muna frá Barnaskólunum í Reykjavík og á Akureyri; Kvennaskólanum, Kennaraskólanum og Landakotsskólanum. Þessi sýning var miklu fjölbreyttari en hin fyrri. Þar voru sýnishorn af nálega öllu, sem unnið er hér á landi, og á einhvern hátt getur talist til iðnaðar. Sýningargripir komu víðsvegar að af landinu, svo það má með sanni segja, að sýningin hafi verið þjóðleg, og sýnt glögga mynd af þroska iðnaðarins hér á landi á þeim tíma. Mikið fjölmenni kom til að skoða sýninguna. Veitt voru verðlaun 122 sýnendum. Af þeim fengu 32 I. verðlaun, 29 II. og 61 III. Verðlaunin voru silfurpeningar, eirpeningar og heiðursbréf eins og á sýningunni 1883. Þess má geta, að ágóðinn af sýningunni varð 9 kr. 82 aurar.

Sýningin var hin mesta og fjölbreyttasta sýning, sem haldin hefir verið hér á landi, og þótti hún almennt hafa heppnast ágætlega, og vera Iðnaðarmannafélaginu til mikils sóma.

Heimild