Á sýningunni er rifjuð upp tilurð og byggingarsaga kirkjunnar í máli og myndum. Þar er minnst einstakra þátta úr byggingarsögunni en ekki hvað síst hinnar miklu fórnfýsi sem fylgismenn kirkjunnar lögðu á sig til að gera byggingu hennar að veruleika.
Hallgrímskirkja var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Fyrsta skóflustungan var tekin hinn 15. desember 1945 en kirkjan var ekki vígð fyrr en 41 ári síðar og þá var raunar mörgu enn ólokið. Á ýmsu gekk í byggingarsögunni og vakti kirkjan miklar deilur, bæði hvað varðar stærð, útlit og staðsetningu. Þá gekk oft erfiðleg að afla fjár til að standa straum af framkvæmdum en í stórum dráttum komu um 60% úr sjóðum safnaðarins og frá einkaaðilum en auk þess studdu bæði ríki og borg verkið. Hallgrímskirkja er minningarkirkja um Hallgrím Pétursson. Hún er hönnuð í nýgotneskum stíl og er hvorttveggja helsta kennileiti Reykjavíkur og stærsta kirkja Íslands. Þar er jafnframt stærsta orgel landsins, Klais-orgelið, sem var vígt 1992.