Borgarskjalasafn Reykjavíkur fékk í dag til varðveislu efnismikið og einstakt einkaskjalasafn Mörtu Thors. Guðrún Pétursdóttir dóttir Mörtu og Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður skrifuðu undir samning þar að lútandi, en Borgarskjalasafn varðveitir einnig skjalasafn Ólafs Thors, föður Mörtu.
Marta Thors fæddist árið 1918 og ólst upp í fjölskyldu sem stóð í hringiðu þjóðmála, dóttir Ólafs Thors og Ingibjargar Indriðadóttur. Hún fór ung utan til tónlistarnáms í Vínarborg á tímum sem reyndust viðsjárverðir með uppgangi Hitlers. Á stríðsárunum vann hún við íslensku utanríkisþjónustuna í New York og Washington og varð þar vitni að heimsögulegum viðburðum eins og samningunum í Bretton Woods.
Í ársbyrjun 1946 giftist hún Pétri Benediktssyni sem þá var sendiherra Íslands í fjölmörgum Evrópulöndum með aðsetur í Moskvu. Á næstu árum ferðaðist hún með honum um rústir meginlands Evrópu þegar hann vann að milliríkjasamningum um viðskipti hins nýstofnaða lýðveldis. Þau bjuggu í París frá 1948 til 1956, en fluttu þá heim til Íslands, þar sem Pétur varð bankastjóri Landsbankans. Eftir sem áður ræktuðu þau vel sinn litríka hóp innlendra og erlendra vina, eins og bréfasafn Mörtu ber vitni um.
Skjöl Mörtu Thors endurspegla vel að líf hennar var ekki dæmigert fyrir íslenskar konur sem fæddust í lok fyrri heimstyrjaldar og lifðu fram undir lok aldarinnar. Í safninu eru einkum sendibréf frá íslenskum og erlendum aðilum, sem gefa oft innsýn í það sem gerðist á bak við tjöldin á viðburðarríkum tímum. Safnið fyllir 16 öskjur og hefur verið skráð og frágengið af gefanda. Safn Mörtu verður ekki opnað nema með sérstöku leyfi gefanda fyrr en árið 2024.
Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar á Íslandi tekur Borgarskjalasafn Reykjavíkur þátt í þjóðarátaki um söfnum á einkaskjalasöfnum kvenna. Safnið hefur áhuga á að fá til varðveislu skjöl jafnt kvenna og karla, af öllum stéttum og öllum aldri. Með skjölum er m.a. átt við dagbækur, sendibréf, heillaóskakort, póstkort, ljósmyndir, handskrifaðar uppskriftabækur, heimilisbókhald og svo mætti lengi telja. Hægt er að koma skjölunum til safnsins að Tryggvagötu 15 eða hafa samband við starfsmann með tölvupósti á netfangið borgarskjalasafn@reykjavik.is eða í síma 4116060.
Mun minna hefur varðveist af skjölum kvenna en karla. Algengt er að skjalasöfn kvenna séu um 10-20% af skjalasöfnum einstaklinga á opinberum skjalasöfnum og þau eru yfirleitt mun minni að umfangi. Því er nú lögð sérstök áhersla á að hvetja landsmenn til þess að halda til haga skjölum kvenna og bent á þann möguleika að koma þeim til varðveislu á skjalasafn, þar sem setja má ákvæði um að þau verði ekki opin almenningi fyrr en að tilteknum tíma liðnum.
Skrá yfir skjöl Mörtu Thors