Fram í dagsljósið – Hinsegin saga í skjölum

Borgarskjalasafn Reykjavíkur opnar miðvikudaginn 8. ágúst 2012 kl. 17.00 sýninguna Fram í dagsljósið – Hinsegin saga í skjölum, í Tjarnarsal Ráðhúss og eru allir velkomnir á opnunina eða að heimsækja hana síðar.

Á sýningunni eru sýnd á spjöldum og í sýningarkössum úrval skjala og útgáfuefnis sem tengist sögu samkynhneigðra og annars hinsegin fólks frá fyrri árum. Á sýningunni er jafnframt aðstaða til þess að setjast niður og skoða eldri sem yngri tímarit Samtakanna ´78 og fræðsluefni.

Á sýningu Borgarskjalasafns kennir ýmissa grasa og margt til sýnis sem minnir á aðra tíma en þá sem við nú lifum, tíma sem voru mörgum samkynhneigðum erfiðir og grunnt á fordóma, en jafnframt er lýst breytingu á samfélaginu og þeim áföngum og sigrum sem samkynhneigðir og annað hinsegin fólk hefur náð á síðustu áratugum.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur varðveitir skjalasafn Samtakanna ´78 og lýsa skjölin vel starfsemi félagsins og helstu baráttumálum þeirra í gegn um tíðina. Til viðbótar við skjölin sem ná frá stofnun Samtakanna eru úrklippur frá fyrri árum sem lýsa vel ótrúlegum fordómum og ótta við þá sem eru öðruvísi og þær aðstæður sem hinsegin fólk þurfti að búa við.

Á sama tíma opnar sýningin Hinsegin dagar í myndum á vegum mannréttindaskrifstofu borgarinnar en þar sýna Bára Kristinsdóttir og Geir Ragnarsson skyggnur frá Hinsegin dögum í áranna rás.

Sýningarnar standa í Ráðhúsi Reykjavíkur frá 8. ágúst til og með 15. ágúst 2012 og er opin kl. 9 til 17. Þá flytjast þær báðar í húsnæði Borgarskjalasafns Reykjavíkur að Tryggvagötu 15, 3. hæð þar sem þær verður opin út ágústmánuð virka daga kl. 10 til 16. Aðgangur er ókeypis á báðum stöðunum.

Hönnuður sýningar Borgarskjalasafns er Björn G. Björnsson, sýningastjóri er Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður en hún og Guðjón Indriðason, deildarstjóri á Borgarskjalasafni völdu efni. Starfsmenn safnsins önnuðust uppsetningu. Höfundur texta sýningar er Þorvaldur Kristinsson og ljósmyndir eru eftir Báru Kristinsdóttur og fleiri. Nokkrar ljósmyndir eru fengnar frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Flestar úrklippur eru fengnar af www.timarit.is.