Í fyrradag færði Helgi Páll Þórisson, formaður Skautafélags Reykjavíkur elstu skjöl félagsins til eignar og varðveislu, þ.e. frá því það var endurreist haustið 1938. Um er að ræða elstu fundargerðabækur Skautafélags Reykajvíkur, sendibréf, bókhald, félagskrár, veggspjöld, afmælisrit og fleira.
Skjöl eru fengur til sögu skautaíþróttarinnar og sögu íþrótta í Reykjavík og færir Borgarskjalasafn Helga Páli Þórissyni og Skautafélagi Reykjavíkur bestu þakkir fyrir afhendinguna.
Ef einhver hefur undir höndum eldri eða yngri skjöl um skautaíþróttir í Reykjavík, myndi Borgarskjalasafn þiggja með þökkum að fá þau til varðveislu. Þar gæti verið til dæmis um að ræða gjörðabækur, sendibréf, ljósmyndir, aðgöngumiðar, lýsingar á listdansatriðum o.s.frv. Vinsamlegast hafið samband við gudjon.indridason@reykjavik.is til að fá frekari upplýsingar.
Skjölin verða nú skráð, gengið frá þeim í viðeigandi umbúðir og verða þau síðan aðgengileg á lesstofu Borgarskjalasafns. Áætlað er að þau verði tilbúin til notkunar í lok janúar 2014.
Hér má lesa um sögu Skautafélags Reykjavíkur.