Á afmælisdegi Reykjavíkurborgar þriðjudaginn 18. ágúst 2009 , tók borgarstjórinn í Reykjavík, Hanna Birna Kristjánsdóttir, formlega við einstöku ferðabókasafni Þórðar Björnssonar fv. bæjarfulltrúa og síðar ríkissaksóknara sem varðveitt verður í Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Af sama tilefni opnaði borgarstjóri sýningu á skjölum úr skjalasafni Þórðar sem einnig er varðveitt á Borgarskjalasafni. Guðfinna Guðmundsdóttir ekkja Þórðar afhenti borgarstjóra þessa höfðinglegu gjöf.
Fáir vita að Þórður Björnsson var markviss og ástríðufullur bókasafnari sem safnaði verðmætum ferðabókum um Ísland. Bókasafnið telur alls 2150 verk, og er þar að finna helstu rit sem fjalla um ferðir erlendra ferðalanga til Íslands en einnig eru þar greinar og ýmis konar efni þar sem fjallað er um Ísland og íslenska menningu út frá ýmsum sjónarhornum og fræðasviðum allt frá 18. öld og fram undir lok síðustu aldar. Safn þetta er mikill fengur fyrir alla þá sem vilja kynna sér íslenska menningu og sögu frá sjónarhóli þeirra sem horfa á land og þjóð úr mismunandi fjarlægð, með ólíka þekkingu og bakgrunn.
Það var ósk Þórðar að ferðabókasafnið yrði varðveitt í heild sinni í einni af stofnunum borgarinnar þar sem hann var bæjarfulltrúi í alls 12 ár. Honum þótti mikilvægt að það yrði fræðimönnum og öðrum áhugasömum uppspretta og efniviður rannsókna, en væri um leið varðveitt á tryggan hátt. Þessu merkilega safni hefur nú hefur verið valinn staður í Borgarskjalasafni Reykjavíkur þar sem einkaskjalasafn Þórðar er einnig varðveitt. Þá hefur Minjasafn Reykjavíkur fengið afhent ýmsa muni til varðveislu s.s. gömul leikföng, skauta og skíðasleða sem tilheyrðu Þórði. Bókasafninu fylgja einnig 18 Íslandskort sem síðar stendur til að skanna og gera aðgengileg á vef Borgarskjalasafns.
Þórður hóf bókasöfnun sína fyrir alvöru þegar hann dvaldist sem ungur maður í London og Svíþjóð, strax eftir að seinna stríði lauk eða árin 1945-6. Hann ferðaðist í kjölfarið víða um Evrópu í leit að bókum og kom sér upp mikilvægum tengslum við bóksala víða um lönd og má segja að leitin að bókinni hafi oft verið leyndur ef ekki ljós tilgangur ferðalaga hans á erlenda grund.
Ferðabókasafn Þórðar er einstakt safn bæði hérlendis og erlendis eins og fram kemur í formála Braga Kristjónssonar fornbókasala í formála bókaskrár sem Guðfinna Guðmundsdóttir tók saman. Þar kemur fram að ,,ekkert safn í þessari sérgrein hafi verið fullkomnara safni Þórðar, utan stærstu ríkisbókasafna í Kaupmannahöfn og Reykjavík.“ Borgarbókasafn Reykjavíkur mun skrá safnið í Gegni, samskrá íslenskra bókasafni og mun það fljótlega verða aðgengilegt á lestrarsal Borgarskjalasafns.