Egill Skúli Ingibergsson, fv. borgarstjóri í Reykjavík hefur nú afhent Borgarskjalasafni Reykjavíkur ræðusafn sitt til varðveislu. Ræðurnar spanna tímabilið 1978 til 1982 þegar hann var borgarstjóri. Um er að ræða handrit borgarstjóra að ræðum og sýna vel hvað hann flutti ávörp við margvísleg tækifæri. Skemmtilegt er að sjá breytingar hans á handritunum. Hver og ein ræða verður skráð og skráin mun fljótlega birtast á vef Borgarskjalasafns.
Egill Skúli Ingibergsson er 84 ára í dag, en hann er fæddur 23. mars 1926 í Vestmannaeyjum. Hann varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands árið 1948, lauk fyrrihluta prófi í verkfræði frá Háskóla Íslands 1951. Próf í raforkuverkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole í Kaupmannahöfn árið 1954. Hann hefur starfað síðan sem verkfræðingur, fyrst hjá opinberum aðilum og síðar með eigið fyrirtæki. Egill Skúli var ráðinn borgarstjóri af meirhluta borgarstjórnar Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks. Staða borgarstjóra var auglýst og var hann valinn úr hópi 10 sumsækjenda.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur óskar Agli Skúla innilega til hamingju með daginn og þakkar fyrir afhendinguna.