Egill Skúli Ingibergsson, borgarstjóri Reykjavíkur á árunum 1978 til 1982, færði Borgarskjalasafni Reykjavíkur í gær góða gjöf sem er skjalasafn Félags velunnara Borgarspítala (FVB).
Um er að ræða heilstætt safn skjala og í því eru m.a. fundargerðir stjórnar og félagsfunda, lög félagsins, bréf, greinargerðir, skýrslur og önnur skjöl um starfsemi félagsins, fréttabréf, ársreikningi og fleira. Meðal annars er í skjalasafninu ýtarlegar upplýsingar um kaup á fullkominni aðgerðarsmásjá fyrir slysadeild á árunum 1986 til 1987, sem hafði mikil áhrif á starfsemi deildarinnar.
Félag velunnara Borgarspítala var stofnað árið 1983 en það kallaðist síðar Vinafélag Sjúkrahúss Reykjavíkur (VSR). Egill Skúli var formaður félagsins á árunum 1983 til 1997. Fjölmargir störfuðu með félaginu og má þar nefna Birgi Ísleif Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóra; Hafstein Guðmundsson, prentara; Bjarka Elíasson, yfirlögregluþjón; Ólaf B. Thors, forseta borgarstjórnar og forstjóra Sjóvá og Ingimund Sigfússon, forstjóra Heklu.
Þegar félagið var stofnað var Borgarspítali rekinn af Reykjavíkurborg. Tilgangur félagsins var að bæta hvers kyns aðstöðu sjúklinga og stuðla að því að þeir fái sem besta og hagkvæmasta lausn á sínum heilbrigðisvandamálum; bæta og efla alls kyns þjónustu svo sem lækningar, endurhæfingu og vísindastarfsemi og stuðla að því að sú þjónusta megi vera sem árangursríkust og til fyrirmyndar; efla og styrkja fyrirbyggjandi starfsemi í heilbrigðismálum; stuðla að auknum skilningi almennings og stjórnvalda á starfsemi Sjúkrahúss Reykjavíkur með málefnalegri kynningu og umræðu. Ennfremur að stuðla að því að SR sé aðlaðandi og vinsæll vinnustaður og að vinnuaðstaða sé þar jafnan sem best.
Félagið beitt sér fyrir fjölmörgum verkefnum, stórum sem smáum, sem of langt mál er að telja upp hér. Þar má til dæmis nefna eftirtalin kaup á tækjum eða annað:
Meginreglan var að samþykki allra stjórnarmanna lægi að baki hverri ákvörðun og að ákvarðanir/tillögur væru ekki settar fram fyrr en ljóst væri að ráðamenn spítalans væru málinu meðmælir og ef um tæki væri að nota, fyrr en þeir sem nota ætu tækin hefðu komið fram og lýst sinni þörf og að tækið yrði notað.
Ánægjulegt er að skjalasafn félagsins hafi varðveist og það í svo heillegri mynd. Það varpar góðu ljósi á starfsemi félagsins og styður við rannsóknir í heilbrigðismálum og á sögu Borgarspítala en skjalasafn Borgarspítala að sjúkraskrám frátöldum er varðveitt á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.
Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður tekur við einni af möppunum með skjölum félagsins