Í lok desember sl. kom út skýrsla með samanteknum niðurstöðum úr eftirlitskönnun Þjóðskjalasafns Íslands með starfsemi héraðsskjalasafna.
Samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 hefur Þjóðskjalasafn Íslands eftirlit með rekstri héraðsskjalasafna. Árið 2017 sendi Þjóðskjalasafn héraðsskjalasöfnum spurningakönnun í því skyni að uppfylla þessa eftirlitsskyldu sína.
Í skýrslunni eru birtar niðurstöður um starfsemi allra 20 héraðsskjalasafna sem í landinu starfa og tillögur til úrbóta þar sem það á við, þar á meðal niðurstöður varðandi starfsemi Borgarskjalasafns.
Auk þessarar skýrslu voru unnar skýrslur fyrir hvert og eitt héraðsskjalasafn byggðar á svörum hvers safns. Skýrslur um starfsemi einstakra héraðsskjalasafna voru sendar héraðsskjalasöfnum og sveitarfélögum sem eru aðilar að viðkomandi héraðsskjalasöfnum auk Sambands íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneytins.
Ákaflega áhugavert er að sjá að starfsemi Borgarskjalasafns Reykjavíkur er á mörgum sviðum um helmingur af starfsemi allra héraðsskjalasafna á Íslandi. Má þar nefna til dæmis fjöldi hillumetra af skjölum, fjöldi fyrirspurna á ári, fjöldi íbúa bak við hvert safn.
Hins vegar eru fæst stöðugildi miðað við íbúafjölda á Borgarskjalasafni og rekstrarkostnaður einungis um 25% af heildarkostnaði allra héraðsskjalasafna landsins.
Á næstunni mun Borgarskjalasafn Reykjavíkur kynna nánar niðurstöðu skýrslunnar hvað safnið varðar.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur mun taka athugasemdir Þjóðskjalasafns varðandi hvað megi betur fara í starfsemi safnsins til vandlegrar skoðunar og vinna markvisst að því að bæta úr þeim atriðum sem nefnd eru. Safnið telur að ákaflega gott sé að fá utankomandi aðila til að gera úttekt á starfsemi safnsins og benda á hluti sem muni efla safnið og bæta þjónustu og gæði safnsins, til hagsbóta fyrir borgarbúa og notendur safnsins.
Umrædda heildarskýrslu um starfsemi héraðsskjalasafna má nálgast hér:
Starfsemi héraðsskjalasafna. Niðurstöður eftirlitskönnunar Þjóðskjalasafns Íslands 2017.