Forsætisráðuneytið hefur birt drög að fyrstu upplýsinga- og samskiptastefnu Stjórnarráðs Íslands til umsagnar og samráðs, í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar 23. apríl sl. Lögð var áhersla á að stefnan yrði hnitmiðuð og markviss þar sem tiltekin markmið og gildi yrðu höfð að leiðarljósi. Við mótun hennar var m.a. horft til ákvæða upplýsingalaga og sambærilegra stefna í nágrannaríkjunum Noregi, Svíþjóð og Danmörku.
Ein af meginstoðum góðrar stjórnsýslu er að hún sé opin og aðgengileg almenningi. Krafan um opna stjórnsýslu, aukið gagnsæi og virkt lýðræði verður stöðugt ríkari í nútíma samfélagi. Til að bregðast við þessari kröfu þótti mikilvægt að móta upplýsinga- og samskiptastefnu Stjórnarráðs Íslands, sem tæki til upplýsingamiðlunar og samskipta ráðuneyta inn á við og út á við með hliðsjón af upplýsingalögum. Tilgangur slíkrar stefnu er að auki að efla samvinnu og samhæfingu innan Stjórnarráðsins alls.
Meginmarkmið stefnu Stjórnarráðsins í upplýsinga- og samskiptamálum eru:
Að almenningur, þar með talin fyrirtæki, stofnanir og aðrir lögaðilar, fái réttar og skýrar upplýsingar um réttindi sín og skyldur og njóti nauðsynlegra leiðbeininga.
Að aðgangur almennings að upplýsingum um starfsemi Stjórnarráðsins sé greiður.
Að almenningi standi til boða að taka þátt í stefnumótun á margvíslegum sviðum.
Að efla gæði upplýsinga og samskipta gagnvart almenningi með aukinni samvinnu, samhæfingu og skilvirkni innan Stjórnarráðsins.
Samskipta- og upplýsingastarfsemi Stjórnarráðsins hefur eftirfarandi að leiðarljósi:
Frumkvæði: Stjórnarráðið veitir almenningi upplýsingar um starfsemi sína, svo sem með samantektum um mikilvæg verkefni, rafrænni útgáfu skýrslna eða útgáfu annarra gagna.
Opin: Sá sem biður um upplýsingar á að fá þær. Ganga skal svo langt sem lög og reglur leyfa.
Skiljanleg: Upplýsingar eiga að vera á vönduðu, einföldu og skýru máli.
Fagmennska: Upplýsingar eiga að vera réttar og í samræmi við tilefnið.
Tímanleg: Upplýsingar á að láta í té svo fljótt sem auðið er.
Miðlun: Aðgengi að upplýsingum á að auðvelda svo sem kostur er.
Þátttaka: Stjórnarráðið auðveldar almenningi að bera fram fyrirspurnir eða tillögur og hvetur til þátttöku og lýðræðislegrar virkni.
Forsætisráðuneytið leitar eftir samráði og umsögnum um tillögurnar í stefnunni. Frestur til að skila inn umsögnum er til 31. maí næstkomandi og ber að skila þeim til forsætisráðuneytisins: postur@for.stjr.is.
Tillaga að upplýsinga- og samskiptastefnu Stjórnarráðsins