Þriðjudaginn 16. apríl 2013 kl. 13.00 tekur Borgarskjalasafn Reykjavíkur, í samvinnu við Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi, þátt í alþjóðlegum viðburði á vegum skjalasafnsins í Birmingham Alabama. Hið áhrifamikla „Bréf úr Birminghamfangelsi“ verður lesið upp og farið yfir lífshlaup Martin Luther King Jr Bréfið verður lesið víða um heim þennan dag til að minnast Martin Luther King Jr og baráttunnar fyrir mannréttindum svartra í Bandaríkjunum.
Tilefnið er að 50 ár verða liðin frá því að Martin Luther King byrjaði að skrifaði hið fræga „Bréf úr Birminghamfangelsi“ sem var svar við yfirlýsingu átta hvítra presta frá Alabama um réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum þar sem þeir segja að baráttan eigi eingöngu að fara fram fyrir dómstólum, ekki á götum úti. Í svari sínu leggur Martin Luther King Jr hugmyndafræðilegan grunn fyrir þá friðsamlegu réttindabaráttu sem hann stóð fyrir og útskýrði af hverju almenn mótmæli væri nauðsynleg. Bréfið markaði þáttaskil í baráttunni og er þekkt fyrir einstaka rökfestu King og er einn af þekktari textum sem ritaðir hafa verið á enska tungu.
Luis E. Arreaga sendiherra Bandaríkjanna mun fjalla um líf og störf Martin Luther King. Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur tala um sína sýn á mannréttindabaráttu í dag. Sendiherra Bandaríkjanna, Jón Gnarr og Anna Pála Sverrisdóttir formaður Samtakanna '78 munu svo lesa hluta úr bréfinu.
Markmið þessarar stundar er að vekja athygli á friðsamlegri mannréttindabaráttu um allan heim og minnast þess hve miklum straumhvörfum mannréttindabarátta svartra í Bandaríkjunum með Martin Luther King í fararbroddi olli í heiminum.
Viðburðurinn fer fram í húsnæði Borgarskjalasafns Reykjavíkur, Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, 3. hæð þriðjudaginn 16. apríl milli kl. 13.00 og 13.30.
Allir velkomnir.
Fræðast má frekar um viðburðinn á http://www.bplonline.org/programs/1963/Letter.aspx
Bréfið í heild sinni má nálgast hér: http://mlk-kpp01.stanford.edu/kingweb/popular_requests/frequentdocs/birmingham.pdf