Borgarskjalasafn verður með opið hús og fjölbreytta dagskrá á Safnanótt föstudagskvöldið 3. febrúar 2017 kl. 18.00-23.00.
Sigurbjörn Þorkelsson rithöfundur og Guðfinna Ragnarsdóttir ættfræðingur flytja fyrirlestra, boðið verður upp á föndur fyrir krakkana og gestum á öllum aldri boðið upp á efni og kennslu í því að gera Valentínusar-kort, sem má taka með sér. Þá verður myndgreiningarveggur, þar sem gestir eru beðnir um aðstoð við að greina ljósmyndir, tónlistaratriði, sýning á frumskjölum, getraun og fleira skemmtilegt.
Hægt er að koma og fara eins og hentar og er öll dagskráin ókeypis. Heitt á könnunni.
18.00-23.00 Opið hús, skjalasýning, getraun. Kaffi á könnunni og kannski te líka.
18.00-23.00 Sýningar. Sýning á ættartölum sem varðveittar eru í Borgarskjalasafni. Einnig sýning frá Guðfinnu Ragnarsdóttur á ættfræðinngar ýmsu hliðum.
18.30-20.30 Gerðu eigin klippimynd. Borgarskjalasafn býður fólki að koma og gera eigin klippimynd eins og sköpunargleðin blæs þeim í brjóst, Leiðbeinandi er Kristín Arngrímsdóttir myndlistarmaður og safnið býður upp á föndurefni. Fyrir alla aldurshópa.
18.30-20.30 Ástin í fyrirrúmi - Gerðu Valentínusar kort. Borgarskjalasafn býður fólki að koma og gera Valentínusarkort eins og sköpunargleðin blæs þeim í brjóst, en Valentínusardagur er 14. febrúar. Leiðbeinandi í kortagerð er Kristín Arngrímsdóttir myndlistarmaður og safnið býður upp á föndurefni.
20.00-20.45 Ættfræði í gamni og alvöru. Guðfinna Ragnarsdóttir, ritstjóri Fréttabréfs Ættfræðifélagsins heldur erindi sem hún kallar Ættfræði í gamni og alvöru. Þar sýnir hún ættfræðinnar mörgu og ólíku hliðar, þörf okkar fyrir tengslin við forfeðurna og sögu okkar, undirstrikar ábyrgð á að safna fróðleik, varðveita ættargripi, myndir, bréf og skjöl og skrásetja söguna. Saga okkar er dýrmætur fjársjóður til framtíðar. Erindinu sýning á ættfræðinnar ýmsu hliðum.
21.00-21.30 Ástin, vonin og lífið. Sigurbjörn Þorkelsson ljóðskáld og rithöfundur flytur erindi um ástina, vonina og lífið. Sigurbjörn er þekktur fyrir fyrirlestra sína og hefur gefið út fjölda bóka. Vertu á meðan þú ert því það er of seint þegar þú ert farinn. Sigurbjörn Þorkelsson.
21.30-22.00 Vinir Skúla. Nokkrir fjallhressir karlar úr Söngfélagi Skaftfellinga syngja saman nokkur lög í léttum dúr eins og Skaftfellingum er einum lagið, við undirleik Friðriks Vignis Stefánssonar. Þeir kalla sig Vini Skúla.
22.15-22.35 Írskir og skoskir tónar. Skúli Ragnar Skúlason, fiðluleikari og Friðrik Vignir Stefánsson, píanóleikari leika saman skoskar ballöður og ræla frá Írlandi. Bæði er um að ræða hressilega tónlist og angurværa ballöður. Ragnar hefur kennt á fiðlu við Tónlistarskólann á Akranesi í 22 ár, stjórnar hinni þekktu Þjóðlagasveit Tónlistarskólans á Akranesi. Friðrik Vignir er organisti við Seltjarnarneskirkju.
Tímasetningar eru til viðmiðunar.
Hlökkum til að sjá ykkur !