Á menningarnótt er Borgarskjalasafn Reykjavíkur með þrjár sýningar í stigagangi Grófarhúss. Tvær litlar sýningar eru á matseðlum og bæklingum sem gefnir voru út í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986.
Sýningin Hin mörgu andlit Sverris fjallar um Sverri Kjartansson (1924-2013) en Borgarskjalasafn fékk nýlega fjölbreytt skjalasafn hans til varðveislu.
Í safni Sverris eru bréf, vottorð, húsaleigusamningar, skjöl um það sem Sverrir hefur verið að gera í atvinnuskyni, gögn vegna tónlistar- og leiklistarferils hans, ljósmyndir, safn af nótnabókum, upptökur úr þáttum sem Sverrir var með hjá Ríkisútvarpinu og með ýmis konar tónlist (segulbandsspólur og snældur) hljómplata o.fl.
Í safni Sverris eru einnig bréf og skjöl Kjartans Júlíusar Jónssonar (1885-1973) föður hans sem fluttist til Kanada 1924. Þar er meðal annars að finna bréfaskipti hans og Ingibjargar Guðmundsdóttur (1900-1999) eiginkonu hans og móður Sverris sem varð eftir á Íslandi, skírteini, ferðavottorð og ljósmyndir. Einnig eru þar bréf, munir og ljósmyndir Sveinbjörns Jónsonar (1893-1973) föðurbróður Sverris.
Sverrir Kjartansson (1924-2013) var fæddur í Reykjavík og ólst upp í Skuggahverfinu. Foreldrar hans voru þau Ingibjörg Guðmundsdóttir (1900-1999) húsfreyja og Kjartan Júlíus Jónsson (1885-1987) bakari. Sverrir fór í Iðnskólann þar sem hann lærði pípulagnir, hann vann við verslunarstörf og fleira, meðal annars í hljómplötudeild Fálkans og Húsgagnaverslun Kristjáns Siggeirssonar. Hann tók mikinn þátt í félagsmálum, var virkur í Alþýðuflokknum, framkvæmdastjóri Alþýðublaðsins 1960-1961 og kosningastjóri Alþýðuflokksins í borgarstjórnarkosningum 1978.
Tónlist og söngur var líf og yndi Sverris Kjartanssonar frá unga aldri. Hann lærði á gítar og mandólín hjá Guðmundi Á. Bjarnasyni og lék með honum í Briem- kvartettinum ásamt Ragnheiði Þórólfsdóttur og Páli H. Pálssyni. Sverrir var einn af stofnendum Mandólínhljómsveitar Reykjavíkur árið 1943, var í stjórn hennar til 1947 og lék á 1. mandólín. Hljómsveitin hélt tónleika og kom fram í útvarpi.
Sverrir Kjartansson gekk í Tónlistarfélagskórinn og í framhaldi af því í Þjóðleikhúskórinn við stofnun hans 1953. Hann tók þátt í tónlistar- og óperuuppfærslum Þjóðleikshússins og söng meðal annars í I Pagliacci og Cavalleria Rusticana 1954, hlutverk Goro hjúskaparmiðlara í Madam Butterfly 1965 og var í fjórum hlutverkum í Ævintýrum Hoffmans 1966. Sverrir gekk í Karlakór Reykjavíkur árið 1943. Hann söng í kirkjukór Hallgrímskirkju, kirkjukór Fríkirkjunnar í Reykjavík, Kammerkórnum og fleiri sönghópum um árabil.
Sverrir Kjartansson var einn af stofnendum Byggingasamvinnu-félagsins Framtaks 1955 og formaður þess. Félagið reisti eitt fyrsta háhýsið hér á landi, 12 hæða blokk á Hálogalandshæðinni við Sólheima. Sverrir stofnaði Auglýsingaþjónustuna 1962, gaf út eintak af tímaritinu Blanda 1974 og vann að handbók fyrir eldri borgara Silfursíðurnar. Árið 1978 tók hann að sér að selja auglýsingar í Símaskrána á vegum Pósts og Síma og var auglýsingastjóri Símaskrárinnar til ársins 1993. Sverrir vann við þáttagerð fyrir Ríkisútvarpið um árabil og sá meðal annars um þættina Hin gömlu kynni og Úr handraðanum.
Gréta Björg Sörensdóttir og Bergþóra Annasdóttir höfðu umsjón með sýningunum.