Austurbæjarskóli 80 ára - Einstakt yfirlit yfir öll áhöld og muni skóla árið 1933

Í dag þann 20. október 2010 eru 80 ár frá því Austurbæjarskóli tók til starfa. Á vefsíðu skólans kemur fram að áður hafði skólinn við Tjörnina, síðar nefndur Miðbæjarskólinn, verið aðalskóli bæjarins. Áratugurinn 1920 til 1930 fór í undirbúning og byggingu skólans sem reis í austanverðu Skólavörðuholti og var í fyrstu kallaður Nýi barnaskólinn. Sigurður Guðmundsson, húsameistari gerði teikningar og sá um bygginguna.

Austurbæjarskóli er fyrsta húsið í Reykjavík sem hitað er upp með hitaveituvatni. Ásmundur Sveinsson, myndhöggvari gerði lágmyndir yfir báðum aðaldyrum skólans og einnig yfir dyrum á austurgöflum. Í skólanum voru 30 almennar kennslustofur. Auk þeirra voru margar sérgreinastofur: teiknistofa, kennslueldhús, smíðastofa, sundlaug, fimleikasalur, handavinnustofa stúlkna, samkomusalur fyrir skemmtanir (jólaskemmtanir), kvikmyndasýningar og söngsalur. Einnig sérbúnar náttúrufræði- og landafræðistofur velbúnar kennslugögnum. Þetta var á þessum tíma líklega best útbúni skóli landsins og jafnvel þótt víðar væri leitað.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur varðveitir mikið af skjölum sem tengjast byggingu skólans og upphafi og má þar nefna að í málasafni borgarstjóra eru líklega flestir verksamningar varðandi bygginguna.

Þar á meðal er skrá yfir alla muni og áhöld skólans á árinu 1933. Þetta er einstök skrá því hún er nákvæmur listi yfir hvað var til í nýjum skóla á þessum tíma. Búið er að ljósmynda bókina í heild sinni og má skoða hana hér á pdf formi:

Skólinn kallaði á nýja og frjálslegri kennsluhætti. Frá upphafi voru þéringar felldar niður og ákveðið var að börnin gengu frjáls inn í skólann en skipuðu sér ekki í raðir úti í porti. Skólastjórinn sem var hámenntaður og áhugasamur brautryðjandi í fræðslumálum safnaði að sér velmenntuðum kennurum. Vinnubókagerð og samvinna nemenda var tekin upp. Mikill skortur var á námsbókum og öðru lesefni handa börnum. Margir af kennurum Austurbæjarskóla voru mikilvirkir rithöfundar sem skrifuðu fjölþætt efni handa börnum.

Árið sem skólinn tók til starfa var ákveðið að færa skólaskylduna niður um 2 ár, börnin hæfu skólagönguna 8 ára gömul. Fyrsti skólastjórinn var Sigurður Ó. Thorlacius og 32 kennarar störfuðu við skólann.  Nokkru eftir 1950 varð nemendafjöldinn mestur, 1839. Nemendur skiptust í allt að 11 deildir í hverjum árgangi. Nú eru 479 nemendur á aldrinum 6-15 ára í Austurbæjarskóla í 21 bekkjardeild. Starfsmenn eru 79.

Sjá:

http://www.austurbaejarskoli.is/index.php?option=com_content&view=article&id=513&Itemid=127