Ályktun frá ráðstefnu Félags héraðsskjalavarða á Íslandi 24.-26. september 2014 í Vestmannaeyjum.
Krafa um endurskoðun á framlagi til héraðsskjalasafna á fjárlögum 2015
Ný lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 sem samþykkt voru á Alþingi 16. maí sl. skilgreina héraðsskjalasöfn formlega sem sjálfstæð opinber skjalasöfn á Íslandi. Fram kemur í 9. gr. laganna að þau eiga að „njóta styrks úr ríkissjóði samkvæmt því sem er ákveðið í fjárlögum hverju sinni“. Með lögunum eru auknar skyldur og verkefni lögð á héraðsskjalasöfnin sem þeim er ætlað að sinna.
Árið 2010 lækkaði framlag ríkissjóðs til héraðsskjalasafna um 50% og hefur sú lækkun ekki gengið til baka þrátt fyrir ítrekaðar óskir og beiðnir þar um. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 er lagt til að framlag til héraðsskjalasafna verði 11,3 milljónir króna á árinu 2015 sem skiptist milli þessara tuttugu safna.
Fjárveitingar ríkisins í formi árlegra styrkja til héraðsskjalasafna eru mjög óverulegar og nánast rétt til málamynda miðað við þær stjórnsýsluskyldur sem þeim er ætlað að annast, sem hluti af opinberum skjalavörslustofnunum landsins. Stjórnvöld auka stöðugt kröfur til afhendingarskyldra aðila og þar með til héraðsskjalasafna, nú síðast með ítarlegum reglum frá árinu 2010 og nýjum lögum nr. 77/2014, en á sama tíma lækka fjárframlögin. Til að mynda greiðir ríkissjóður nú 0,6% af kostnaði við Borgarskjalasafn Reykjavíkur en borgarsjóður 99,4%. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 er áætlað að Borgarskjalasafn fái kr. 57.172 á mánuði frá ríkissjóði sem svarar til 47 aura á hvern íbúa Reykjavíkur.
Verulega skortir á að héraðsskjalasöfn fái nauðsynleg og eðlileg fjárframlög frá ríkinu til að sinna lögbundnum stjórnsýsluskyldum sínum, m.a. vegna eftirlits og ráðgjafar, auk þess að samþykkja málalykla, skjalavistunaráætlanir og skjalageymslur. Ljóst er að auka þarf verulega framlag ríkissjóðs til héraðsskjalasafna vegna þeirra verkefna og krafna sem löggjafinn hefur lagt á héraðsskjalasöfnin og sveitarfélögin. Það er vilji og stefna löggjafans að fullburða og faglega rekin héraðsskjalasöfn starfi um land allt. Því er það eðlilegt að ríkissjóður styrki héruð og kaupstaði til að svo megi vera.
Á ráðstefnu Félags héraðsskjalavarða á Íslandi sem haldin var í Eldheimum í Vestmannaeyjum dagana 24.-26. september 2014 var samþykkt að fara fram á að framlag ríkissjóðs til héraðskjalasafna á árinu 2015 verði endurskoðað, enda er það yfirlýst stefna Alþingis með lögum allt frá árinu 1946 að tryggja að fullburða og vel rekin héraðsskjalasöfn starfi um land allt. Því er brýnt að Alþingi auki framlög til héraðsskjalasafnanna í ljósi hinna nýju laga um opinber skjalasöfn sem samþykkt voru nú í vor.