Föstudaginn 13. ágúst sl. kom María Jónsdóttir (f. 1925) ásamt syni sínum Jóhanni B. Jónssyni og færði Borgarskjalasafni Reykjavíkur stórt safn af tímaritum og sniðum til varðveislu. Einkum er um að ræða safn sauma- eða sniðablaða, eins og Burda, Hennes verden, Neue mode, Elsa og Anna. Einnig er töluverður fjöldi útsaumsblaða og föndurblaða. Safnið nær frá ca árunum 1950 til 2000, en fljótlega verður farið í skráningu þess. Þá er í safninu fjöldi sniða að fötum byggð á blöðum og mynstur fyrir útsaum.
Að jafnaði tekur Borgarskjalasafn ekki við tímaritum til varðveislu en ákveðið var að taka við þessu safni, þar sem það lýsir vel tísku í Reykjavík á þessu 50 ára tímabili og hvernig konur studdust við sniðablöð við saumaskap.
Sniðin, föndurblöðin og sniðablöðin verða öllum aðgengileg á lesstofu Borgarskjalasafns og hægt er að glugga í þau þar og fá hugmyndir að fatnaði til að sauma eða kannski föndri fyrir jólin.
María Jónsdóttir fæddist þann 23. nóvember 1925 og var móðir hennar Guðbjörg Sigríður Jónsdóttir. Vegna veikinda móður var henni og tvíburasystur hennar komið í fóstur þegar þær voru sjö vikna gamlar til hjóna sem bjuggu í Akurhúsi í Garði í Gerðahreppi. Fyrir áttu hjónin sex börn og þau tóku tvö önnur börn í fóstur auk þeirra. Frekari frásögn um lífið í Garði er að finna í Niðjatali hjónanna Jóns Pálssonar og Ragnheiðar Jónsdóttur sem Guðmundur Knútur Egilsson gef út í Reykjavík 2006.
María saumaði alla tíð mikið og var mikið fyrir hannyrðir. Hún lærði saumaskap mest af sjálfri sér með reynslunni en ein fóstursystir hennar kom henni af stað. Hún notaði alltaf sniðablöðin mikið til að styðjast við og stækkaði og minnkaði snið eftir þörfum. Fyrst notaði hún saumavél fósturmóður sinnar en hún eignaðist sína fyrstu saumavél þegar hún var 23 -24 ára og bjó í Camp Knox ca 1949-50. Það var Elna saumavél sem var lítil en dugleg. Næstu vél eignaðist hún um 1956-57 og var það einnig Elna vél. Hún er ennþá til og í vel nothæfu ástandi. Svo átti hún litla overlock vél.
Áður fyrr var mikið saumað upp úr gömlum fötum og allt nýtt sem hægt var. María lýsti fyrir starfsmönnum Borgarskjalasafns hvernig hún hefði stundum fengið í hendur gamla flík, afganga eða efni og þegar hún var búin að leggja þetta á borð, gat hún séð fyrir sér hvernig hægt væri að nýta efnið sem best í flíkur. Hún var alltaf við sauma eða föndur heima. Hún keypti mikið af blöðum og notaði þau til að fá hugmyndir og taka snið upp úr. Hún saumaði mikið föt fyrir fjölskyldu sína og fólk í nærumhverfi sínu; skyrtur, buxur, draktir og jafnframt öll föt á sjálfa sig. María lýsti því stolt hvernig hún saumaði í eitt skipti brúðarkjól frá grunni og kláraði að sauma annan kjól.
María vann á saumastofu Hagkaupa í 18 ár, frá 1970 til 1988. Þegar hún byrjaði í október 1970 var saumastofan í kjallara undir verslun Hagkaupa í Skeifunni. Aðspurð sagði María að saumastofan hefði þá verið hætt að sauma Hagkaupssloppana þekktu. Vorið 1971 flutti saumastofan upp í Bíldshöfða. Þar var miklu betri aðstaða og hafði saumastofan heila hæð fyrir sig. Þeim fannst aðstaðan alveg frábær og "maður hafði aldrei séð svona stór sniðaborð fyrr". Hún var aðallega á stóru saumavélunum. Á saumastofunni var saumaður fatnaður sem var síðan seldur í verslunum Hagkaupa; buxur, blússur, skýrtur, kjólar og allt mögulegt. Fyrir jól og páska varða að vinna langt fram á kvöld. María segir að þarna hafi verið góður andi og skemmtilegt að vinna og voru starfsmenn yfirleitt um 20 talsins. Pálmi í Hagkaupum hafi oft komið upp til þína og rabbað við þær.
Seinna var farið að vinna eftir bónuskerfi á saumastofunni. "Þá varð þetta miklu leiðinlegra, allir að flýta sér og gæðin minnkuðu. En það var gott að vinna þarna."
Texti: Svanhildur Bogadóttir