Áframhaldandi rannsóknir fyrir Vistheimilanefnd

Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur unnið að viðamiklum rannsóknum fyrir Vistheimilanefndina svokölluðu, þ.e. nefnd skv. lögum nr. 26/2007, frá því vorið 2007. Nú er að ljúka rannsóknum safnsins á málum einstaklinga sem voru á Reykjahlíð og hefst þá vinna við leit að málum einstaklinga sem dvöldu á Silungapolli. Áður hafa verið afrituð þau almennu skjöl sem finnast í fórum safnsins um starfsemi og rekstur þessara heimila.

Næsta áfangaskýrsla nefndarinnar er væntanleg í júlí 2010 og verður þar fjallað um eftirtalin heimili:

Vistheimið Reykjahlíð (1956-1972) Heimavistarskólinn Jaðar (1946-1973) Vistheimilið Silungapollur (1950-1969)

Á árunum 2007 til 2008 var unnið að rannsóknum á starfsemi Breiðavíkurheimilisins og málum einstaklinga sem þar dvöldust á árunum 1952 til 1979 og kom sú skýrsla út 31. janúar 2008. Hér má nálgast skýrsluna á rafrænu formi.

Árin þar á eftir 2008 til 2009 var unnið að rannsóknum á starfsemi heimilanna að Bjargi, Kumbaravogi og Heyrnleysingjaskólans, ásamt málum einstaklinga sem þar voru vistaðir. Skýrsla nefndarinnar um fyrrnefnd heimili kom út 31. ágúst 2009 og er að finna hér. Í henni er fjallað um:

Heyrnleysingjaskólan árin 1947-1992, Vistheimilið Kumbaravog árin 1965-1984 Skólaheimilið Bjarg árin 1965-1967

Í frétt á vef Morgunblaðsins 4. janúar sl. kemur fram að vistheimilanefndin leitist nú við að hafa samband við fyrrverandi vistmenn Silunga­polls og að þeim gefist enn tækifæri til að greina frá dvöl sinni þar.

Nefndin birti tvívegis auglýsingu í fjölmiðlum í október s.l. í tengslum við könnun á starfsemi Silungapolls, þess efnis að fyrrverandi vistmenn heimilis­ins, sem óskuðu eftir að veita nefndinni upplýsingar um dvöl sína, hefðu samband við nefndina til að óska eftir viðtalstíma.

Í fréttinni segir ennfremur að ástæða þess að tekin var ákvörðun um að leitast við að hafa samband við fyrrverandi vistmenn Silunga­polls með þeim hætti sé sú, að á vistheimilinu voru líklega á annað þúsund einstaklingar vistaðir á starfstíma þess. Þá liggi ekki fyrir heildstæðar upp­lýsingar um þá vistmenn sem þar dvöldu og þar af leiðandi töluverðum erfið­leikum háð að bjóða fyrrverandi vistmönnum bréflega að koma til viðtals við nefndina.

Er þeim sem áhuga hafa á því að koma í viðtal bent á að hafa samband við nefndina fyrir 1. febrúar nk. í síma 563-7016 eða senda ósk um viðtalstíma á netfangið vistheimili@for.stjr.is

Sjá nánar fréttina á:

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/04/nefnd_rannsakar_nu_silungapoll/

SKÝRSLA NEFNDAR SAMKVÆMT LÖGUM NR. 26/2007 Áfangaskýrsla nr. 1 Könnun á starfsemi Heyrnleysingjaskólans 1947-1992, vistheimilisins Kumbaravogs 1965-1984 og skólaheimilisins Bjargs 1965-1967