Fríkirkjan í Reykjavík var stofnuð 19. nóvember 1899 og fagnar því 110 ára stofnafmæli sínu um þessar mundir. Í tilefni af afmælinu færðu þær Sigurborg Bragadóttir og Helga Kristinsdóttir Borgarskjalasafni Reykjavíkur til varðveislu skjalasafn Kvenfélags Fríkirkjunnar í Reykjavík. Kvenfélagið er elsta kirkjukvenfélag landsins og auk þess eitt af elstu kvenfélögum hér á landi en það var stofnað 6. mars árið 1906. Um er að ræða skjöl alveg frá stofnun félagsins og er einkar mikill fengur að þeim.
Fram kemur að tilgangur með stofnun félagsins var að sameina krafta kvenna í trúarlífi og kristilegu siðgæði, efla safnaðarstarfið, hjálpa fátækum konum, líkna sjúkum og bágstöddum í söfnuðinum og styrkja góð málefni.
Í viðtali við Sigurborgu Bragadóttur, formanns Kvenfélagsins í Hátíðarriti Fríkirkjunnar sem kom út 19. nóv. 2009 kemur fram að fyrstu árin hafi kvenfélagið safnað fé til kaupa á ýmsum kirkjumjunum svo sem altaristöflu og skírnarfonti. Kvenfélagið hafi meðal annars tekið þátt í söfnun til styrktar byggingu Vífilsstaðaspítala og Landspítalans og einnig safnið til hjálpar stríðshrjáðum þjóðum.
Konur í Kvenfélagi Fríkirkjunnar í dag reyna að vinna í anda fyrirrennara sinna og halda í gömlu gildi. Félagskonur halda í dag fimm fundi á ári og styðja og styrkja kirkjustarfið.
Skjölin sem voru afhent af þeim Sigurborgu og Helgu rúmast í tveimur öskjum. Um er að ræða skjöl frá árunum 1907 til 1996 og eru þar á meðal eru fundargerðabækur frá árunum 1907-1985, meðlimaskrá 1909-1921, basarbók 1975-1991 og rit um sögu kvenfélagsins sem gefið var út á fimmtíu ára afmæli þess.