Í dag var haldið upp á 30 ára starfsafmæli Svanhildar Bogadóttur borgarskjalavarðar en hún hóf störf á safninu þann 8. september 1987.
Hér má lesa viðtal við Svanhildi þegar hún hafði nýlega hafið störf á Borgarskjalasafni.
Á þessum 30 árum hefur Borgarskjalasafnið gengið í gegnum miklar breytingar, allt frá því að vera með þrjá starfsmenn í tveimur stöðugildum, og varðveita 2.500 hillumetra af skjölum, upp í að vera með níu starfsmenn og varðveita 10.000 hillumetra af skjölum. Það gerir um 300% aukningu á skjalamagni á 30 árum.
Þá hefur sú meginbreyting orðið í starfsemi safnsins að áður fyrr voru það einkum fræðimenn og námsmenn sem sóttu safnið heim í gagnaöflun en nú leitar til safnsins fjöldi einstaklinga á ári hverju í leit að upplýsingum um eigin bakgrunn og sögu. Þá hafa gagnabeiðnir almennings margfaldast, ekki síst eftir að fyrstu upplýsingalögin voru sett árið 1996. Berast safninu nú um u.þ.b. 2000 beiðnir á ári hverju.
Borgarskjalasafn er eitt of opinberu skjalasöfnum landsins, sem nú starfar m.a. undir lögum um opinber skjalasöfn og hefur eftirlit með skjalavörslu þeirra aðila sem eru afhendingarskyldir um skjöl sín og önnur gögn til þess.