Þann 24. janúar 2013 voru 105 ár liðin frá því að konur voru fyrst kjörnar til setu í bæjarstjórn Reykjavíkur. Þessar kosningar voru um margt merkilegar en bæjarfulltrúum hafði verið fjölgað úr 13 í 15, 18 listar voru í framboði og mikið hafði fjölgað á kjörskrá.
Mikilvægasti áfanginn í þessum kosningum var þó að þar buðu konur fram Kvennalista í fyrsta skipti. Hann skipuðu þær frú Bríet Bjarnhéðinsdóttir, frú Guðrún Björnsdóttir, frú Katrín Magnússon og frú Þórunn Jónassen. Listinn vann stórsigur og hlut flest atkvæði allra af þeim listum sem buðu sig fram alls 345. Þær hefðu fengið fimmtu konuna inn en voru bara fjórar á listanum en erfiðlega hafði gengið að fá konur til að bjóða sig fram. Konurnar voru allar á sextugsaldir og úr stétt heldri borgara í Reykjavík.
Meðfylgjandi er mynd af skýrslu til Hagstofunnar vegna kosninganna 1908 þar sem lesa má nöfn þeirra sem kjörnir voru í bæjarstjórnina 24. janúar 1908. Athyglisvert er að skoða hvernig konurnar eru skráðar í skýrsluna en í dálkinn fyrir stétt eða atvinnu er skráð fyrir Katrínu Magnússon „gift lækni“ og Þórunn Jónassen „gift fv. landlækni“. Katrín var þó á sama tíma formaður Hins íslenska kvenfélags og Þórunn formaður Thorvaldsensfélagsins. Hér má sjá Skýrslu til Hagstofunnar um bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 24. janúar 1908 á pdf formi.
Það var yfirlýst markmið Kvennalistans að vera ópólitískur og þær beittu sér fyrir ýmsum hagsmunamálum kvenna svo sem uppbyggingu barnaleikvalla, sundkennslu fyrir stúlkur, bættri heilsugæslu og aðstoð við fátæka. Þær létu sig þó öll málefni sem komu fyrir bæjarstjórn varða og voru virkar í málefnum tengdum gatnagerð og framgangi gasmálsins.
Á Borgarskjalasafni er nokkuð varðveitt af skjalasöfnum kvenna en safnið hefur markvisst reynt að fá slík söfn til varðveislu. Ef þú átt skjöl frá konum í fórum þínum má finna upplýsingar um móttöku skjala frá almenningi hér. Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um skjöl tengd konum sem varðveitt eru á Borgarskjalasafni.
Í skjalasafni Sigríðar Björnsdóttur kennslukonu (1879-1942) er meðal annars bréf frá Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.
Þema Skjaladagsins 2009 var "Konur og kvenfélög". Á Borgarskjalasafni er varðveitt skrá yfir giftar konur sem höfðu kosningarétt árið 1908. Þar er nafn eiginmanns ætíð skráð til hliðar við nafn konunnar enda höfðu aðeins giftar konur kosningarétt á þessum tíma.
Í skjalasafni Bjarna Benediktssonar leynast einnig nokkuð mörg skjöl kvenna úr fjölskyldu hans og má skoða nokkur þeirra hér.
Heimild: Guðjón Friðriksson. 1991. Saga Reykjavíkur : Bærinn vaknar 1870-1940 Fyrri hluti. Reykjavík: Iðunn.