Í dag var þess minnst að 100 ár eru liðin frá því vatni var fyrst hleypt af brunahana í Reykjavík í dag, 16. júní 2009.
Fram á 20. öld fengu Reykvíkingar allt neysluvatn sitt úr brunnum. Það var borið í hús í fötum og oft voru svokallaðir vatnsberar fengnir til þessa verks. Vatnsberarnir voru oft fólk sem lent hafði utangarðs í samfélaginu og tók alla þá vinnu sem gafst. Þeirra á meðal var Sæfinnur með sextán skó en hann bar vatn til bæjarbúa á daginn og hreinsaði kamra þeirra á kvöldin. Ótti bæjarbúa við að sjúkdómar bærust með vatni í hús kallaði á umræðu um nauðsyn þess að hafa nægt ferskt vatn.
Í maí árið 1904 var haldinn mikilvægur borgarafundur í Reykjavík. Umræðuefnið var vatnsuppspretta bæjarbúa og nauðsyn á úrbótum í þeim efnum. Á fundinum deildu menn um hvort skynsamlegt væri að veita vatni úr Elliðaám inn í bæinn gegnum steypurör eða hvort bora ætti eftir meira vatni og fjölga brunnum í bænum. Einnig kom fram sú tillaga að nota regnvatn til drykkjar. Sú hugmynd að veita vatni frá Elliðaánum átti mestan hljómgrunn meðal fundargesta. Það var þó ekki fyrr en 1909 sem Vatnsveitan var tekin í notkun en fram að þeim tíma höfðu menn reynt að bora eftir meira vatni með litlum árangri.
Í bréfi til bæjarstjórnar Reykjavíkur dagsettu hinn 30. október 1907, lagði verkfræðingurinn Jón Þorláksson, síðar borgarstjóri, fram drög að skipulagi framkvæmda við vatnsleiðslurnar ásamt tilheyrandi kostnaðaráætlun. Framkvæmdir hófust skömmu síðar. Þar með var lagður grunnur að Vatnsveitu Reykjavíkur.
Texti: Sigríður Björk Jónsdóttir/Sigríður Jörundsdótir
Sjá má skjöl frá upphafi vatnsveitu hér á vefsíðunni www.euarchives.org
meðal annars lýsing á fyrirhugaðri vatnsveitu í Reykjavík
Af vef Orkuveitu Reykjavíkur:
Undirstaða borgarlífs
Tilkoma vatnsveitu markaði dýpri spor í sögu Reykjavíkur en marga grunaði, enda er ferskt rennandi vatn forsendur fyrir svo mörgu í daglegu lífi, sem ekki blasir endilega við okkur í dag.
Það var ekki mikið um hátíðahöld meðal Reykvíkinga enda litið svo á að verkinu væri lokið fyrr en vatnstakan hæfist úr Gvendarbrunnum. Fyrstu mánuðina fengu borgarbúar yfirborðsvatn tekið ofarlega úr Elliðaánum. Íbúar Reykjavíkur voru um 5.000 á þessum tíma, sem skagar hátt í íbúafjöldann á Akranesi. Í dag er erfitt að ímynda sér svo stórt pláss án vatnsveitu.
Sjá myndbönd um Vatnsveitu Reykjavíkur hér.