Nánari upplýsingar | |
---|---|
Nafn | Torfusamtökin |
Númer | E-580 |
Lýsing | Torfusamtökin voru stofnuð 1972 og eru frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að efla áhuga á gildi íslenskrar byggingararfleifðar og að standa vörð um varðveislu þessa arfs svo hann megi um framtíð verða lifandi hluti af borgarlandslagi okkar. Árið 1970 þegar stjórnvöld ákváðu að rífa svokallaða Bernhöftstorfu í Reykjavík, þ.e. húsaröðina ofan Lækjargötu á milli Bankastrætis og Amtmannsstíg og byggja þar Stjórnarráðshús. Snörp orðaskipti urðu út af þeirri áætlun yfirvalda í dagblöðum og sýndist sitt hverjum. Þá var húsunum lýst sem "dönskum fúaspýtum" og "hrútakofum" og hrópuð voru slagorð eins og "rífið kofana". Baráttunni fyrir verndun Torfunnnar óx þó ásmegin. Arkitektafélag Íslands, með Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt, þáverandi formann félagsins, í fararbroddi, barðist fyrir varðveislu húsanna og hafði síðan frumkvæði að því að Torfusamtökin voru stofnuð árið 1972. Hinn fyrsta desember 1972 var haldinn útifundur framan við Bernhöftstorfuna. Að þeim fundi stóðu öll félög innan bandalags íslenskra listamanna og öll félög ungra stjórnmálamanna auk einstaklinga. Þar fluttu ávörp Jónatan Þórmundsson, Páll Líndal og Þór Magnússon. Í ávarpi Þórs kom fram að hvarvetna í heiminum hefði menningarverðmætum verið eytt umhugsunarlaust og víða um lönd hefðu nú risið upp kröftug andmæli gegn þessari gereyðingarstefnu. Við Íslendingar hefðum "horft sljóum augum á, hvernig menningarverðmæti þjóðarinnar hafa verið tætt í sundur og þeim eytt, oft af lítilli ástæðu. Enn fremur sagði hann: "Hér fyrir framan okkur höfum við dálítinn part af Reykjavík 19. aldar, enn ósnortinn að mestu. Þetta er hluti af Reykjavík Jóns Sigurðssonar og samtímamanna hans, sem við nefnum oft á degi sem þessum og þökkum baráttuna fyrir sjálfstæði landsins. Þessi húsaröð frá Stjórnarráðinu til Bókhlöðu Menntaskólans er hið eina samfellda sem nú er eftir af byggðinni í Reykjavík frá því um miðja 19. öld." Þarna var saman komið á annað þúsund manns sem stóð með tendruð blys og söng. Að fundinum loknum var farin blysför í Sigtún (Sjálfstæðishúsið) við Austurvöll og þar voru Torfusamtökin stofnuð fyrir fullu húsi. Á fundinum var kosin fimm manna stjórn og var Guðrún Jónsdóttir kosin formaður samtakanna á fyrsta stjórnarfundi. Hlutverk samtakanna var og er að vinna að varðveislu, endurnýjun og fegrun gamla miðbæjarins í Reykjavík og annarra hverfa, gatna eða húsa í Reykjavík er hafa menningarsögulegt gildi eða gildi sökum fegurðar eða samræmis í umhverfi. |
Skjalaskrá |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | E-580 Torfusamtökin (1972) |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Félagasamtök |
Útgáfuár | 2015 |
Útgefandi | Borgarskjalasafn Reykjavíkur |
Leitarorð | Bernhöftstorfan, húsavernd, Guðrún Jónsdóttir, miðbær Reykjavíkur |